Efni sem tengist fræðslumálum

Þrátt fyrir óveðursviðvaranir um allt land héldu vaskir skátar á viðburðinn Ungir talsmenn á Akureyri síðastliðna helgi (24.-26. febrúar). Viðburðinn, sem haldinn var í nýja glæsilega skátaheimili Klakks, Hyrnu á Akureyri, sóttu 12 rekka- og róverskátar víðsvegar að af landinu.  Margir gætu velt því fyrir sér hvað Ungir talsmenn er, en það er helgarnámskeið á vegum Bandalags íslenskra skáta þar sem skátarnir fá tækifæri til að læra um notkun samfélagsmiðla í þágu skátastarfs, myndatöku og framkomu í fjölmiðlum.

Brugðið á leik við Hamra

Framtíðarsýn?

Helgin hófst á föstudegi með kynningu á viðfangsefnum viðburðarins í formi ýmissa hópverkefna og glærukynninga. Skátunum var skipt í fjóra flokka sem hver um sig tók að sér samfélagsmiðil eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir. Eftir staðgóðan morgunverð á laugardagsmorgninum, hófst dagskrá dagsins með fyrirlestrinum Að vera virkur borgari sem var hollari en hafragrautur. Þar lærðum við hvernig skátar um allan heim taka virkan þátt í samfélaginu og hvernig við getum verið betri samfélagsþegnar í okkar samfélagi. Síðar um daginn eftir Carbonara dásemd fórum við í ævintýralandið Hamra þar sem ljósmyndakennsla Halldórs Valberg fyrr um daginn nýttist vel. Þar fengum við að leika lausum hala með myndavélar að vopni. Þeir sem fylgja Skátarnir á Snapchat, Instagram eða Facebook hafa líklegast ekki misst af því. Ekki örvænta Tryggvi Marinósson, framkvæmdarstjóri Hamra…. þó að við höfum stolið smjörklípu af þér fyrir lummugerð þá færðu það margfalt til baka með flottum auglýsingum af Hömrum í formi ljósmynda.

 

 

 

Næsta ævintýri fór fram í sundlaug Akureyrar þar sem meirihluti hópsins tók sér sundsprett og yljaði sér í heita pottinum. Þegar heim var komið beið heljarinnar pizzuveisla svangra þátttakenda. Þegar allir höfðu borðað nægju sína tók við valdagskrá af ýmsum toga. Í boði var að taka upp útvarpsþátt, læra að vera fyrir framan og aftan myndavélina í viðtali og skrifa þessa grein. Deginum lauk svo á rólegu nótunum þar sem þáttakendurnir hjúfruðu sig saman á vindsængum og svifu inn í draumalandið.


Það var um 9 leytið á sunnudagsmorgninum, þegar fyrstu þátttakendurnir vöknuðu, sem við áttuðum okkur á því að okkur var vandi á höndum. Allir vegir frá Öxnadalsheiði að Reykjavík voru lokaðir. Eftir að hafa talað við Vegagerðina fengum við þær upplýsingar að ef við værum ekki komin út úr Akureyri fyrir klukkan tvö yrðum við föst á þar fram á þriðjudag. Hvað gera skátar þá? Ákveðið var að klára tiltekt eins fljótt og hægt var og keyra sem fyrst suður. Þó að ævintýrið hafi endað fyrr en áætlað var þá komust allir sáttir heim, ánægðir með skemmtilegan og fræðandi viðburð, þrátt fyrir veður.

Þessi grein er því góð áminning að láta ekki eitthvað eins og veður koma í veg gott skátastarf. Við erum nú einu sinni skátar – ávallt viðbúnir er það ekki?

 

Þessi grein var skrifuð af skipuleggjendum og þátttakendum Ungra talsmanna; Sölku, Vigdísi Fríðu, Sæbjörgu, Fanneyju, Magnúsi og Sunnu Líf.

Síðastliðna helgi fór fram á Úlfljótsvatni 5. skref Gilwell-leiðtogaþjálfunar, Leiðtogi í eigin lífi.

19 skátar luku þar með Gilwell-vegferðinni og útskrifuðust sem Gilwell-skátar við hátíðlega athöfn í Gilwell-skálanum í gær.

Ragnheiður E. Stefánsdóttir kenndi skátunum að vera Leiðtoagar í eigin lífi

Helgin einkenndist af fræðslu og umræðum um hvað einkennir góðan leiðtoga og hvernig leiðtogar þroskast og vaxa. Ragnheiður E. Stefánsdóttir Gilwell-skáti og mannauðsstjóri hélt fyrirlestur um að vera leiðtogi í eigin lífi og Jón Lárusson Gilwell-skáti og markþjálfi kynnti fyrir okkur Markþjálfun og skátastarf.

 

 

 

 

Grunngildi skátahreyfingarinnar og hlutverk sjálfboðaliða voru einnig til umræðu ásamt hæfilegum skammti af

Björgvin stjórnar kvöldvöku

ígrundun og samveru.

Að sjálfsögðu var einnig hátíðarkvöldverður og kvöldvaka sem Björgvin Magnúss DCC stjórnaði eins og honum einum er lagið.

Leiðbeinendur og stjórnendur námskeiðsins voru sammála um að hér var einstaklega skemmtilegur hópur skáta að útskrifast og væntum við þess að sjá mikið af þeim í fjölbreyttum verkefnum fyrir skátahreyfinguna á næstum árum.

 

 

Gilwell-skólinn óskar nemendum innilega til hamingju með áfangann.

 

 

:: Hér má kynna sér meira um Gilwell-leiðtogaþjálfun

Árið 1961 skrifaði Ólafur Proppé grein fyrir Skátablaðið um „fjallarekkastarf“. Skátar á aldrinum 15-18 ára voru á þessum tíma stundum kallaðir „fjallarekkar“. Um þetta leyti stóðu yfir umræður um skátastarf þessa aldursstigs sem enduðu m.a. með því að nafni aldursstigsins var breytt í „dróttskáta“ og Forsetamerkið var tekið upp. „Rekkar og svannar“ voru hins vegar á sama tíma þeir skátar sem við köllum núna „róverskáta“. Í dag eru dróttskátar hins vegar 13-15 ára skátar, en skátar á því aldursstigi sem samsvarar „fjallarekkunum“ í upphafi sjötta áratugarins eru nú nefndir „rekkaskátar“. Þegar talað er um „skátasveit“ í greininni er fyrst og fremst átt við starf 11-14/15 ára skáta. „Ylfingar“ og „ljósálfar“ voru á sjötta áratugnum ekki kallaðir „skátar“.
Það getur verið fróðlegt og skemmtilegt að bera saman umræðuna í dag og fyrir 55 árum. Auðvitað ber greinin hér fyrir neðan einkenni síns tíma – en hefur eitthvað breyst?

Rabb um fjallarekkastarf (skrifað fyrir Skátablaðið 1961)

Fjallarekkastarf hefur oft verið til umræðu, en samt hefur enn ekki verið komist að niðurstöðu um hvernig þessum lið skátastarfsins skuli vera háttað.

Fjallarekkastarf þekkist víða um heim, í flestum þeim löndum þar sem skátahreyfingin hefur náð að festa rætur. Það ekki undarlegt þar sem frábrugðin verkefni eru nauðsynleg fyrir hina eldri skáta áður en þeir ljúka sínu raunverulega skátastarfi. Í sjálfu sér er það merkilegt og jafnvel til skammar að slíkt starf hafi ekki verið tekið upp hér heima.

Danir hafa komið sér upp ágætu kerfi fyrir sína fjallarekka, enda eru þeir með eitt elsta skátastarf í heiminum og hafa á að skipa mjög góðum foringjum. Aðstæður dönsku skátanna eru hvað líkastar okkar aðstæðum og því ættum við að notfæra okkur þá miklu reynslu sem þeim hefur hlotnast. Det danske spejderkorps hefur gefið út tvær bækur um fjallarekkastarf. Önnur heitir „Skovmandsbogen“ og er ætluð hverjum einstökum fjallarekka til aflestrar og hin, „Din skovmandspatrulje“, er einungis ætluð foringjum. Báðar þessar bækur eru ágætar og ráðlegg ég ykkur að lesa þær ef þið hafið tækifæri til.

Í Danmörku starfar skátasveitin líkt og hér, en þar er einn fjallarekkaflokkur innan hverrar skátasveitar og er sveitarforinginn flokksforingi í honum. Þetta krefst að vísu góðra foringja, en við verðum líka að krefjast þess af skátafélögunum að þau hafi sæmilega menntaða og dugmikla foringja. Að öðrum kosti getum við allt eins lagt niður skátastarf á Íslandi. En þetta skapar líka stórum fleiri tækifæri til fjörmikils fjallarekkastarfs.

Hver hefur betri tök á að leiða eldri drengina úr skátasveitinni en sveitarforinginn sjálfur? Engin hefur betri yfirsýn yfir skátana heldur en hann. Sumir segja ef til vill að þeir hafi svo miklum störfum að sinna innan sveitarinnar sjálfrar að þeir hafi hvorki tíma né getu til þess að sinna fjallarekkunum.

En þetta er reginmisskilningur. Hvað er því til fyrirstöðu að hver sveitarforingi hafi 2, 3 eða 4 aðstoðarsveitarforingja sér til hjálpar, bæði við starf yngri skátanna í sveitinni og fjallarekkastarfið. Auk þess á fjallarekkastarfið ekki að vera tómur leikur, heldur líka undirbúningur undir foringjastörf fyrir þá sem kæra sig um og hafa hæfileika til að halda áfram og starfa fyrir skátahreyfinguna og æsku landsins.

Eins á fjallarekkastarfið að skapa hverjum skáta góðan endi á skátaferil hans, sem raunverulega nær ekki lengra en til 18 ára aldurs, því þá tekur við foringjastarf, róverstarf eða ekkert skátastarf.

Er ekki nauðsynlegt að þeir skátar sem hætta starfi á þessu tímabili, en það gera margir, eigi ljúfar endurminningar frá skátaárum sínum. Hversu mikilvægt er ekki að skátaforingjar, róverskátar og þeir skátar sem hverfa úr starfi hafi jákvæðar skoðanir á skátahreyfingunni, markmiðum hennar og aðferðum.

Allt ber að sama brunni. Við sjáum að sá maður sem hefur með fjallarekkastarfið að gera verður að vera sérstaklega góður foringi og helst af öllu, eða öllu heldur skilyrðislaust, sveitarforingi.

Við vitum öll að skátastarfið er einungis skemmtilegur leikur í augum yngri skátanna. En í augum hinna eldri hefur þessi leikur ákveðið markmið og það nokkuð háleitt markmið – eða að gera nýtan borgara úr hverjum dreng og hverri stúlku sem er undir handarjaðri skátahreyfingarinnar.

Það er nauðsynlegt að fjallarekkinn fá smám saman innsýn í skátastarfið frá þessum sjónarhóli, eða með öðrum orðum frá sjónarhóli þess fullorðna. Við vitum vel að þetta er nauðsynlegt hverjum sveitarforingja (þó að töluvert vanti á að svo sé). Og ekki er síður mikilvægt að öllum þeim skátum sem hverfa úr hreyfingunni sé þetta ljóst. Við munum öll eftir sögunni um skátann sem hrökklaðist úr skátastarfinu vegna leiðinda og misklíðar og varð síðan einn ötulasti óvinur hreyfingarinnar, baktalaði hana og rægði. Þetta er ljót saga, en hún er of sönn til að láta hana sem vind um eyru þjóta og við verðum að gera allt sem við getum til að fyrirbyggja að slík saga endurtaki sig.

En hvernig?

Ég vil halda því fram að gott fjallarekkastarf (og ungsvannastarf) gæti að einhverju leyti hjálpað okkur til að koma í veg fyrir slíkt.

Eitt þurfum við líka að athuga. Fjallarekkinn má ekki undir neinum kringumstæðum starfa annars staðar meðan hann er í fjallarekkaflokknum, t.d. sem flokksforingi eða sveitarforingi. Já, nú munið þið brosa og jafnvel segja sem svo „Hvaða fáráðlingur hefur skrifað þetta. Þekkir hann ekkert til skátastarfs á Íslandi. Veit hann ekki að aðalvandamál íslensku skátanna er ungir foringjar. Þetta er óframkvæmanlegt hér hjá okkur“. En ef þið segið þetta, þá segi ég að þið séuð eins og skátinn sem var nýbúinn að lesa erlenda skátabók og hélt því fram að það væri ekki hægt að fara í útilegu á Íslandi. Og hvers vegna? Jú, af því að á Íslandi eru engir skógar. Í mínum huga ber þetta vott um þröngsýni.

Þið megið vita að ég geri mér vel grein fyrir þeim vandamálum sem þjaka íslenska skáta. „Já, en það er ekki nóg að gera sér grein fyrir vandamálunum – þú verður að koma með einhverja tillögu til úrbóta“, segið þið.

Já, vissulega og það er einmitt gott og vel skipulagt fjallarekkastarf sem getur leyst málið – að minnsta kosti þetta vandamál með „ungu sveitarforingjana“. Að vísu verða nokkir erfiðleikar á vegi okkar í fyrstu, en síðar, þegar fjallarekkastarfið er orðin snar þáttur í starfi okkar, fáum við eldri og betur menntaða sveitarforingja.

Að síðustu vona ég að skátaforingjar láti heyra frá sér um þennan mikilvæga hluta skátastarfsins sem ég hef gert hér að umtalsefni, sérstaklega vegna þess að einmitt núna er nefnd að störfum á vegum bandalagsins til að gera út um þetta stórmál.

proppe

Ólafur Proppé

Alþjóðastarf er mikilvægur hluti skátastarfsins. Eitt af verkefnum alþjóðaráðs er að miðla upplýsingum um það sem stendur íslenskum skátum til boða í alþjóðastarfinu

Til þess að koma þessum skilaboðum á framfæri eru notaðir ýmsir miðlar, en best er fyrir áhugasama að fylgjast með Facebook grúppunni Tækifæri í alþjóðastarfi en þangað berast upplýsingar um áhugaverð tilboð og fyrirspurnir frá erlendum skátum sem vilja komast í samband við íslenska skáta.

Það færist í vöxt að íslenskir skátahópar fari á eigin vegum í ferðir til útlanda. Ýmist er farið á skátamót, heimsótt skátamiðstöð eða skátahópur. Alþjóðaráð er tilbúið til þess að aðstoða hópa við undirbúning ferða og til þess að afla sambanda ef á þarf að halda.

Alþjóðaráði er nú þegar kunnugt um nokkra hópa sem hyggjast halda utan í sumar til þess að taka þátt í erlendum skátamótum. Má þar nefna mót í Danmörku, Noregi og Rúmeníu svo eitthvað sé tínt til.

Stóri alþjóðlegi viðburðurinn næsta sumar er svo World Scout Moot, sem haldið verður á Íslandi. Nú þegar hafa 110 íslenskir róverskátar skráð sig til þátttöku auk þess sem nokkur hundruð eldri skáta munu starfa á mótinu sem sjálfboðaliðar í fjölbreyttum verkefnum. Alþjóðaráð vill hvetja alla sem tök hafa á að skrá sig til starfa á mótinu. Það er örugglega hægt að finna áhugavert starf fyrir hvern og einn.

Til þess að ná sambandi við alþjóðaráð er einfalt að senda póst hér.

Við í alþjóðaráði hlökkum til að heyra frá ykkur.

Jón Þór, Liljar, Marta, Tinna, Þórey og Júlli

 

Ef þér finnst þessi staðhæfing rétt þarftu ekki að lesa áfram

Nokkur skátafélög á landinu hafa virkjað krafta fullorðinna sjálfboðaliða og eru með starfandi skátasveitir fyrir fullorðna. Þar sækja fullorðnir sér fræðslu, hafa gaman saman og fá að tilheyra, gefa af sér og njóta samveru með börnum sínum og ungmennum. Þessi sömu skátafélög geta státað af öflugu starfi og fjölgun iðkenda sl. ár.

Það er nefnilega þannig að öflugt skátastarf er ekki mögulegt nema með aðkomu fullorðinna og við sem vinnum sem fullorðnir sjálfboðaliðar vitum hversu gefandi þetta starf er – en einnig hversu nauðsynlegt það er til að halda uppi ábyrgu og flottu skátastarfi.

Á skátaþingi 2015 var samþykkt stefnumótun fyrir skátastarf og framtíðarsýn til ársins 2020. Þar segir m.a.:

Árið 2020 verður skátahreyfingin á Íslandi orðin þekkt af stjórnvöldum og almenningi í landinu sem ein fremsta uppeldishreyfing á Íslandi með um 5000 starfandi skátum í öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins, sem deila sameiginlegum gildum og hafa áhrif til góðs í samfélagi sínu og í heiminum öllum.

Til þess að fjölga skátum og efla gæði skátastarfs þarf að fjölga verulega fullorðnum sjálfboðaliðum í skátastarfi.

Og hvernig gerum við það?

Fræðsluráð ætlar á næstu misserum að aðstoða skátafélög við að fjölga fullorðnum sjálfboðaliðum til að efla skátastarfið í skátafélögunum og þannig á landinu öllu.

Unnin hefur verið áætlun og samþykkt af stjórn BÍS, um hvernig komið verði á fót öflugu „mannauðskerfi skáta“:

 • Október 2016: Útgáfa á íslenskri þýðingu kynningarbæklings frá WOSM um sjálfboðaliða. Bæklinginn má finna í vefútgáfu hér.  sjalfbodalidar-forsida
 • Október – desember 2016: Viðræður við félagsforingja allra skátafélaga þar sem verkefnið er kynnt. Fulltrúar fræðsluráðs eru að hitta félagsforingja þessa dagana.
 • Desember 2016: Útgáfa á handbók fyrir fyrirliða sjálfboðastarfs.
 • Janúar 2017: Búið að skipa fyrirliða sjálfboðastarfs í skátafélögum.
 • Febrúar – mars 2017: Námskeið fyrir fyrirliða sjálfboðastarfs.
 • Maí 2017: „Mannauðskerfi skáta“ fullmótað og þarfagreiningar fyrir sjálfboðaliða tilbúnar.

Og hvað á hann svo að gera þessi „fyrirliði sjálfboðastarfs“?

Meðal þeirra verkefna sem gætu verið á höndum fyrirliða sjálfboðastarfs eru:

 • Hafa yfirumsjón með mannauðskerfi skátafélagsins og halda utan um framkvæmd þess í félaginu.
 • Halda utan um lista yfir þarfir skátafélagsins fyrir sjálfboðaliða (í hvaða hlutverk/verkefni vantar sjálfboðaliða?).
 • Halda utan um nafnalista skátafélagsins (lifandi listi þar sem safnað er saman allt árið um kring nöfnum einstaklinga sem mögulega koma til greina fyrir ýmis verkefni).
 • Taka þátt í því að velja hæfa sjálfboðaliða (af nafnalistanum) í tiltekin hlutverk og gera við þá samkomulag um afmörkuð verkefni.
 • Stýra kynningarfundum fyrir fullorðna, til að kveikja áhuga þeirra á að taka þátt í skátastarfi eða aðstoða við ákveðin verkefni.
 • Taka þátt í samstarfi með fyrirliðum sjálfboðaliða í öðrum skátafélögum, fræðsluráði BÍS, stjórn Gilwell-skólans og starfsfólki Skátamiðstöðvarinnar.

Þarf hann að vera ofurskáti þessi „fyrirliði sjálfboðastarfs“?

Nei, því fyrirliðinn getur verið eldri félagi, einhver úr hópi foreldra eða einhver sem nú þegar situr í stjórn félagsins sem tekur verkefnið að sér.

Hvernig væri að heyra í honum Kalla sem langar að vera með en hefur ekki alveg tíma fyrir vikulega fundi? Eða Stínu sem er snillingur í að tala við fólk og virkja það til góðra verka?

Viltu vita meira?

Verkefnið er á ábyrgð Fræðsluráðs BÍS og munu sjálfboðaliðar úr ráðinu og stjórn Gilwell-skólans, ásamt Dagbjörtu Brynjarsdóttur verkefnastjóra fræðslu- og dagskrármála í Skátamiðstöðinni, vinna með félagsforingjum að verkefninu, vera þeim til stuðnings í upphafi og starfa með og styðja við bakið á fyrirliðunum eftir að þeir hafa verið skipaðir.

Ef þig langar að vita meira eða leggja okkur lið þá hafðu endilega samband við okkur og við upplýsum þig og/eða virkjum krafta þína.

Hér má sjá greinar sem birst hafa á vefmiðlum skátanna um fullorðna í skátastarfi síðustu mánuði.

:: Fornmenn fóru að iðrum jarðar 

:: 5000 skátar fyrir 2020, en hvernig?

 

 

Finnlandsferð alþjóðaráðs

Alþjóðaráð Bandalags íslenskra skáta er skipað fimm skátum sem kosnir eru á skátaþingi. Fjórir meðlimir eru kosnir ár hvert en formaður á þriggja ára fresti. Ráðið ber m.a. ábyrgð á því að kynna alþjóðastarf fyrir íslenskum skátum, standa fyrir ferðum á skátamót erlendis, kynna íslenskt skátastarf erlendis og sér jafnframt um ýmsa viðburði.

Í skátabandalögum annarra landa eru teymi eða ráð með svipuð hlutverk. Alþjóðaráð sótti í vor um styrk í styrkjakerfi Erasmus+ fyrir vettvangsheimsókn og fund með alþjóðaráðum Finnlands og Noregs í Finnlandi. Styrkurinn fékkst og því hélt ráðið til Finnlands í september sl. auk formanns ungamennaráðs.

Miklir styrkmöguleikar fyrir íslenska skáta
Fjölmargir skátar hafa á undanförnum árum hlotið Erasmus+ styrk. Á vefsíðu Evrópu unga fólksins (www.euf.is) er hægt að lesa nánar um tækifærin. Helst hafa skátar hlotið styrk til ungmennaskipta, EVS sjálfboðaliðaverkefni og yfirfærslu þekkingar.  Allar rekka- og róverskátasveitir ættu að kynna sér styrkjakerfið hið fyrsta!

gamanrutumynd

Uppbygging og hlutverk ráða
Eitt af markmiðum fundarins í Finnlandi var að kynnast uppbyggingu alþjóðaráða í Noregi og Finnlandi, deila reynslu og dæmum um góð vinnubrögð hvers lands. Í framhaldi af fundinum hyggst ráðið breyta um starfshætti í ákveðinn prufutíma og meta árangurinn að þeim tíma loknum. Helst ber að nefna breytta hlutverkaskiptingu ráðsmanna og skiptingu fagsviða innan þess. Auk þess breytingu á hugsunarhætti um að nálgast fagþekkingu utan kosinna ráðsmanna. Það er von ráðsins að þetta verði til að auka skilvirkni og efla stuðning við alþjóðastarf.

Efling ungs fólks til áhrifa
Finnland kynnti þjálfunarnámskrá sína fyrir ungt fólk sem vill taka þátt í stjórnskipulegum ákvörðunum á alþjóðlegum vettvangi. Fyrrverandi þátttakendur kynntu námskrána og námskeiðin auk þess að segja frá persónulegri upplifun sinni. Alþjóðaráð hyggst nýta efnið til að þjálfa unga þátttakendur BÍS áður en þeir sækja mögulega fundi eða námskeið erlendis. Þar hefur mátt bæta í efni fyrir þátttakendur sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Á fundinn kom Heidi Jokinen, heimsstjórn WAGGGS, og ræddi við okkur um hvernig bæta mætti áhrif ungra meðlima hreyfingarinnar í stjórnskipulagi WAGGGS. Gerðar voru tillögur sem sendar verða á undirbúningsnefnd næsta heimsþings í þeim tilgangi.

Fyrrverandi þátttakendur í World Scout Youth Forum WOSM kynntu reynslu sína og hvernig undirbúningi væri best hagað í hverju landi. Einnig voru gerðar tillögur um minniháttar breytingar á högum þingsins sem sendar verða til umsjónarmanna þess.

hopmynd-2

Mikilvæg reynsla möguleg fyrir tilstuðlan Erasmus+
Fyrir ungt ráð með þrjá nýlega ráðsmeðlimi var ferðin gríðarlega mikilvæg reynsla. Mikill lærdómur á stuttum tíma um uppbyggingu og áherslur WOSM & WAGGGS. Við hlökkum svo til að prufa nýja starfsaðferðir og hlutverkaskiptingu ráðsins.

Að lokum er rétt að ítreka að Erasmus+ bíður upp á fjölmarga möguleika fyrir hópa, skátasveitir, skátafélög eða aðra til að afla sér styrkja í samstarfsverkefnum við aðrar evrópuþjóðir. Hægt er að fræðast frekar um styrki á vefsíðunni www.euf.is. Einnig er mögulegt að hafa samband við Júlíus Aðalsteinsson í Skátamiðstöðinni s.550 9800 til að fá frekari upplýsingar.

hopmynd-1