Fríður flokkur frá Fræðasetri skáta tók þátt í ráðstefnu norrænna skátasafna sem fram fór í Finnlandi um síðustu helgi. Norrænu skátasöfnin hafa með sér þétt samstarf og hafa komið saman til skrafs og ráðagerða annað hvert ár síðan 1985. Af einhverjum ástæðum hafa íslenskir skátar ekki verið með í þessum hópi þar til nú.

Frá setningu ráðstefnunnar.

Stukkum á þetta tækifæri

Norðurlöndin hafa skipst á að halda ráðstefnuna og í ár var komið að Finnlandi. Formaður ráðstefnunefndar, Matti Helanko, hafði fregnir af starfsemi Fræðasetursins í gegnum vinkonu sína, Danfríði Skarphéðinsdóttur sem kom á tengslum á milli hans, Fræðasetursins og Minjanefndar skáta og í kjölfarið barst þessum aðilum boð um að taka þátt.

„Við hjá Fræðasetri skáta vorum ekki seinir á okkur og stukkum á þetta tækifæri“ segir Gunnar Atlason fararstjóri íslenska hópsins. „Okkar starfsemi hérlendis er ung að árum og við gerðum okkur strax grein fyrir því að það væri mikilvægt að mæta, byggja upp tengslanet, læra og fræðast af nágrönnum okkar“.

Gunnar segir að það sé umhugsunarefni að safnastarfsemi skáta skuli ekki hafa verið sýndur sami áhugi hérlendis og tíðkist t.d. á Norðurlöndunum en þar eru dæmi um lifandi söfn sem hafa starfað í meira en fimm áratugi og séu virkir gerendur í skátastarfinu með sínu starfi.

Safna, sýna og skapa upplifun

„Við hjá Fræðasetri skáta brennum fyrir því að safna og sýna skátamuni og minjar og því var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að mæta á svæðið, segja frá okkar starfi og kynnast því sem aðrir eru að gera” segir Páll Viggósson, einn þátttakenda.

„Eitt af því mikilvægasta sem við tökum með okkur úr þessari ferð er metnaður norrænu safnanna til að vera virkir þátttakendur í skátastarfinu með lifandi safnastarfsemi – það er fáum til gagns að safna skjölum og dóti á bak við luktar dyr – ungu skátarnir þurfa að komast í tæri við söguna með áþreifanlegum hætti og það er einmitt það sem við höfum lagt áherslu á í Fræðasetrinu við Úlfljótsvatn“ bætir Páll við.

Í finnskum fjallaskála: Gauti, Gunnar, Páll, Atli og Sturla.

Nina frá Finnlandi að segja dönskum kollegum sínum eitthvað merkilegt.

Virk þátttaka skiptir máli

Atli Bachmann segir að virk þátttaka skipti máli. „Það var sérstaklega gaman að heyra frá dönsku söfnunum og samstarfi þeirra á landsmóti danskra skáta nú í sumar. Söfnin eru 8 talsins og þau sameinuðust flest í vinsælu dagskráratriði á landsmótinu þeirra. Um 36.000 skátar tóku þátt í mótinu og u.þ.b. 1.500 skátar fóru í gegnum safnatjaldið á degi hverjum.

„Þau settu upp áhugaverð verkefni, voru með bíótjald og buðu upp á dagskrá sem tengdi það gamla og nýja sem sló í gegn. Elda á gömlum tækjum, rata eftir áttavita, kveikja upp eld, máta gamla skátabúninga, prófa viðlegubúnað frá fyrri tíð o.s.frv. – við munum fá alla þessa pósta senda til okkar og getum vonandi nýtt þá á Fræðasetrinu“, segir Atli.

Gunnar Atlason og Atli B. Bachmann.

Sjálfborgandi sjálfboðaliðar

„Við leituðum til BÍS eftir fjárhagslegum stuðningi vegna þátttökunnar en fengum ekki“ segir Guðmundur Pálsson. „Það aftraði okkur hinsvegar ekki frá því að fara og var allur kostnaður greiddur úr vasa hvers og eins. Flug, ráðstefnugjald, gisting og fæði er u.þ.b. 150.000 kr. á mann. Það má því segja að við félagarnir í Fræðasetri skáta höfum fjárfest 900.000 kr. úr eigin vasa í að afla okkur þekkingar sem Bandalag íslenskra skáta hefði fyrir löngu átt að vera búið að fjárfesta í“ bætir Guðmundur við.

Er þá ótalinn kostnaður hvers og eins vegna sumarleyfisdaga og fjarvista frá fjölskyldu.

Hverrar krónu virði

„Þessi ferð var hverrar krónu virði og miklu meira en það” segja þeir Gauti Torfason og Sturla Bragason frá Fræðasetrinu. „Á þessari helgi fengum við staðfestingu og viðurkenningu á því að við værum að feta rétta leið með starfi okkar á Fræðasetrinu og auk þess erum við nú komin formlega í hóp viðurkenndra skátasafna á Norðurlöndunum og það er verulegur slagkraftur í því samstarfi” segir Gauti.

Sigling um skerjagarðinn.

Forskot á sæluna

„Við tókum smá forskot á sæluna og mættum til Helsinki þremur dögum fyrir ráðstefnuna og nýttum tímann til að kynna okkur söfnin á svæðinu og kynna okkur hvernig menn eru að setja upp sýningar“ segir Sturla. „Við heimsóttum þjóðminjasafn Finna, skoðuðum Sibelius-garðinn, steinkirkjuna og fleira en mest þótt mér koma til Nýlistasafnsins og Ólympiuþorpsins – af þessum stöðum má margt læra“.

Ráðstefnan á Íslandi 2021

Norðmenn munu halda næstu ráðstefnu sem fram fer í Osló árið 2019. Við slitin var borin upp formleg tillaga þess efnis að óska eftir að íslenskir skátar myndu taka að sér að halda ráðstefnuna árið 2021 og tóku íslensku fulltrúarnir vel í þá ósk og var því fagnað með lófataki.

Það er því ljóst að íslenskra skáta bíður ærið verkefni, undir stjórn Fræðaseturs skáta, að undirbúa næstu ráðstefnu.

:: Sjá fleiri myndir

 

Skipuleggjendur WorldScoutMoot 2017 gefa reglulega út fréttabréf sem sent er til þúsunda skáta um allan heim. Nú í kvöld kom út sjöunda tölublaðið og sökum þess hversu stutt er í mótið og margir mjög áhugasamir um þróun mála, ákváðum við hjá Skátamál.is að deila þessu fréttabréfi með ykkur.

Íslenskir skátar eru gestgjafar 15th World Scout Moot nú í sumar. Mótið er haldið á vegum heimssamtaka skáta, World Organization of the Scout Movement (WOSM). World Scout Moot er heimsmót eldri skáta. Þátttakendur er ungt fólk á aldrinum 18 – 25 ára auk sjálfboðaliða 26 ára og eldri. Um er að ræða eitt stærsta einstaka verkefni skátahreyfingarinnar í 100 ára sögu hennar á Íslandi og jafnframt stefnir í stærsta heimsmót eldri skáta sem haldið hefur verið frá því að fyrsta mótið var haldið 1931.

Nánari upplýsingar:

:: Þemasíða Skátamál.is um WorldScoutMoot 2017

:: Lesa fréttabréfið | Bulletin #7

:: Skoða eldri fréttabréf

:: Skoða heimasíðu mótsins

:: WorldScoutMoot 2017 á Facebook

Nokk­ur þúsund er­lend­ir skát­ar munu vænt­an­lega sprengja al­menn­ings­sam­göngu­kerfi Reykja­vík­ur­borg­ar í lok júlí nema til sér­stakra aðgerða verði gripið. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Banda­lagi ís­lenskra skáta sem birt var á Mbl.is.

Fjöldi er­lendra skáta kem­ur til lands­ins til að taka þátt í alþjóðlega skáta­mót­inu World Scout Moot sem fram fer hér á landi í lok mánaðar­ins. Móts­svæðið er Laug­ar­dals­höll og munu skát­arn­ir gista í 11 skól­um um höfuðborg­ar­svæðið. Því munu marg­ir þeirra eiga langa leið fyr­ir hönd­um til og frá næt­urstað ef þeir geta ekki nýtt sér stræt­is­vagna borg­ar­inn­ar að því er fram kem­ur í til­kynn­ing­unni.

„Sem bet­ur fer eru marg­ir af skól­un­um, sem hýsa skát­ana, ekki langt frá móts­svæðinu en í nokkr­um til­fell­um er hins veg­ar drjúg­ur spotti sem skát­arn­ir þurfa að ganga, t.d. þeir sem búa í skól­an­um í Kópa­vogi,“ seg­ir Her­mann Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri Banda­lags ís­lenskra skáta.

„Skát­arn­ir hafa fengið 11 skóla víðsveg­ar um höfuðborg­ar­svæðið til að hýsa er­lendu gest­ina fyr­ir og eft­ir mót þótt flest­ir séu í Reykja­vík. Kynn­is­ferðir hafa samþykkt að aka skát­un­um frá Kefla­vík til skól­anna við kom­una til lands­ins og sjá um akst­ur úr skól­um yfir í Laug­ar­dal­inn þar sem al­menn­is­sam­göngu­kerfið ræður ekki við það,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

:: Sjá nánar á Mbl.is

Einn af stærstu alþjóðlegu viðburðum á Íslandi í sumar verður alþjóðlegt skátamót, World Scout Moot, sem haldið verður í lok júlí. Alls 4000 skátar á aldrinum 18-25 ára frá 106 löndum taka þátt í mótinu auk 1100 sjálfboðaliða. Mótið fer fram dagana 25. júli-2. ágúst. Fyrri hluti mótsins fer fram á 11 stöðum á landinu. Seinni hlutinn fer fram á Úlfljótsvatni, þar sem umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir til þess að gera það mögulegt að taka á móti mikla fjölda.

„Við erum að undirbúa stærsta skátamót heims, þar sem ungt fólk með ólík trúarbrögð og venjur þarf að vinna saman að því sameiginlegu markmiði að gera heiminn betri. Í ljósi atburða undanfarinna mánuða er það ögrun. Skátahreyfingin á Íslandi er að leggja sig alla fram um að gera þennan atburð ógleymanlegan og sanna að við viljum breyta heiminum til hins betra“ segir Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta.

Ísland sóttist eftir því að halda mótið  og var sú ósk samþykkt á heimsþingi skáta í Brasilíu árið 2011. Íslenska ríkið hefur veitt stuðning við verkefnið að upphæð 94 milljónir og þar með er talin nauðsynleg uppbygging á Úlfjótsvatni.  Þessi stuðningur hefur gert það mögulegt að stækka mótið  frá því að vera 2000 manna mót í Kanada árið 2013 í það að vera yfir 5000 manna mót á Íslandi í sumar. Fjölmörg bæjarfélög hafa einnig lagt fram mikilvægan stuðning til þessa verkefnis en fyrri hluti mótsins fer fram á eftirtöldum stöðum: Reykjavík, Akureyri, Akranesi, Selfossi, Hveragerði, Hvolsvelli, Kirkjubæjarklaustri, Skaftafelli, Þingvöllum, Vestmannaeyjum og Hornafirði. Áætlað er að ungu skátarnir leggi fram um 20 þúsund sjálfboðaliðavinnustundir á þessum stöðum sem endurgjald fyrir stuðninginn. Þetta eru verkefni eins og stígagerð, ruslahreinsun, skemmtidagskrá í bæjunum og fleira.

Hrönn Pétursdóttir er mótsstjóri World Scout Moot. Hún segir að góð þátttaka íslenskra skáta og þátttaka eldri sjálfboðaliða við hin ýmsu störf geri þetta stóra alþjóðlega mót að veruleika. Alls milli 1100-1200 sjálfboðaliðar, bæði innlendir og erlendir tryggja framkvæmd mótsins. Hún segir að sterk staða krónunnar hafi gert allar áætlanir erfiðar en Skátahreyfingin hafi haft vaðið fyrir neðan sig þannig að framkvæmdahópurinn vonist til þess að verkefnið endi réttum megin við núllið. Hún segir að framkvæmdir á Úlfljótsvatni standi nú yfir og þar sé verið m.a. að stækka tjaldsvæði og byggja upp nauðsynlega innviði m.a. snyrtingar en hún undirstrikar að sjón sé sögu ríkari.

Frekari upplýsingar um World Scout Moot veitir:

Jón Ingvar Bragason, framkvæmdastjóri World Scout Moot

Reykjavíkurborg hefur gert samkomulag við Bandalag íslenskra skáta (BÍS) varðandi World Scout Moot sem haldið verður á Íslandi nú í sumar. Er það langstærsti viðburður sem íslenska skátahreyfingin hefur tekið að sér.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri World Scout Moot undirrituðu samkomulagið. Reykjavíkurborg mun styrkja mótið með endurgjaldslausum afnotum af húsnæði Íþrótta- og sýningarhallarinnar og vegna sundlauga og fleira samkvæmt nánara samkomulagi og kostnaðaráætlun á milli BÍS og íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar (ÍTR). ÍTR mun hafa umsjón með þeim hluta samningsins fyrir hönd borgarinnar.

Bandalag íslenskra skáta mun einnig fá afnot af skólahúsnæði í Reykjavík fyrir gistingu þátttakenda samkvæmt nánara samkomulagi við skóla- og frístundasvið.

Skátarnir munu leggja fram vinnu við samfélags- og umhverfisþjónustu á tímabilintu 25. – 29. júlí, allt að ígildi 2.000 vinnustunda.
Skátarnir munu beita sér fyrir því að kynna Reykjavíkurborg sem best í sambandi við mótið og er m.a. gert ráð fyrir sérstakri kynningu á borginni á erlendri grund vegna þátttöku annarra þjóða á mótinu.

Bandalag íslenskra skáta mun tryggja  að merki borgarinnar verði notað á viðeigandi hátt í tengslum við mótið.

Risamót á vegum heimssamtaka skáta

Þetta er í fimmtánda sinn sem World Scout Moot er haldið og eru íslenskir skátar gestgjafar að þessu sinni. Mótið er haldið á vegum heimssamtaka skáta, World Organization of the Scout Movement (WOSM) og er heimsmót eldri skáta. Þátttakendur er ungt fólk á aldrinum 18 – 25 ára auk sjálfboðaliða 26 ára og eldri. Um er að ræða eitt stærsta einstaka verkefni skátahreyfingarinnar í 100 ára sögu hennar á Íslandi. Jafnframt stefnir í stærsta heimsmót eldri skáta sem haldið hefur verið frá því að fyrsta mótið var haldið 1931. Mótið er að öllu jöfnu haldið á fjögurra ára fresti, á mismunandi stöðum í heiminum.

Yfir fimm þúsund skátar frá yfir 100 löndum sækja mótið hérlendis. Um 450 Ástralir, 360 Svisslendingar og 300 Brasilíumenn mæta til leiks, 85 frá Hong Kong og 15 frá Suður Afríku.  Lang stærsti hópurinn kemur frá Bretlandi eða um 650 manns. Um 100 íslenskir skátar taka þátt.

Reyna að gera upplifun gestanna ógleymanlega

Yfir 300 íslenskir skátar hafa sinnt undirbúningi og skipulagningu mótsins frá árinu 2013 og vinna að því að gera upplifun þátttakenda ógleymanlega.
Þema mótsins er Change – Inspired by Iceland og að sögn skátanna er hægt að nýta það á margvíslegan hátt en það passar vel við það markmið skátahreyfingarinnar að gera heiminn að betri stað.

Mótið stendur yfir í níu daga frá 25. júlí – 2. ágúst 2017, en um 650 manns koma erlendis frá til að aðstoða við framkvæmd þess. Mótið verður sett í Laugardalnum. Í framhaldinu dreifast þátttakendur á ellefu miðstöðvar víðsvegar um landið. Miðstöðvarnar eru í Reykjavík, Akureyri, Hafnarfirði, Þingvöllum, Skaftafelli, Heimalandi, Vestmannaeyjum, Selfossi, Akranesi, Hveragerði og í Hólaskjóli. Þar munu þátttakendur taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Þeir munu einnig leggja samfélaginu lið með 20.000 vinnustundum í sjálfboðavinnu fyrir nærsamfélög einstakra miðstöðva, slík verkefni eru t.d. göngustígagerð og hreinsun stranda svo fátt eitt sé nefnt.

Sameinast á Úlfljótsvatni

Síðari  hluta mótsins sameinast þátttakendur á Úlfljótsvatni, þar sem skátarnir hafa byggt upp starfsemi frá árinu 1941. Mikil uppbygging hefur verið á Úlfljótsvatni í tengslum við mótið en farið hefur verið í framkvæmdir fyrir um 50 millónir króna.  Á Úlfljótsvatni verður fjölbreytt dagskrá fyrir þátttakendur. Mótinu verður slitið á Úlfljótsvatni 2. ágúst. Margir þátttakendur ferðast um Ísland fyrir eða eftir mótið. Að meðaltali eru þátttakendur á landinu í um þrjár vikur. Áætlaðar gjaldeyristekjur af mótinu eru yfir tveir milljarðar króna  en af því eru yfir 500 milljónir í beinan kostnað vegna mótsins.
Frekari upplýsingar um mótið er hægt að finna á heimasíðu þess.

Það er mikið fjör þessa dagana á Moot skrifstofunni í Skátamiðstöðinni. Gríðarlegur fjöldi fyrirspurna berst á hverum degi eftir því sem nær dregur stóru stundinni að 15th World Scout Moot byrji þann 25. júlí nk. Að mörgu er að hyggja varðandi undirbúning og stuðning við komu 5000 skáta til landsins í júlí.

Skátamál leitaði viðbragða hjá Jóni Ingvari Bragasyni framkvæmdastjóra World Scout Moot við nýjustu uppákomunni þegar starfsmenn brugðu sér í björgunarvesti í tilefni dagsins “já við sáum hreinlega enga aðra leið þegar okkur beið ókleift fjall tölvupósta eftir helgina og úti voru viðvaranir um skæða tölvuárásir. Við skelltum okkur bara í vestin og sigldum á móti straumnum og erum farin að sjá til lands”.

Hlutverk moot skrifstofunnar er að tryggja stuðning við þá 200 sjálfboðaliða sem vinna nú baki brotnu að undirbúningi mótsins. Verið er að tryggja aðföng mótsins allt frá tjöldum, til merkinga til sérstakra standa fyrir svokölluð “squat toilets”.

Dagarnir eru oft langir hjá okkur og óvæntir hlutir sem koma upp, yfirleitt fæ ég skilaboð öllum tímum sólarhringsins þar sem fararstjórar þeirra 100 landa sem koma eru að biðja um upplýsingar. Segir Jón Ingvar og bætir við að eitt það besta var sl. föstudagskvöld þegar fararstjóri heimtaði að fá að borga fyrir 29 skáta og það helst strax en gleymdi sjálfur að ganga frá formlegri skráningu.

 

:: Heimasíða Moot