Bryggjuball Landnema bregst ekki!

Klikkað stuð á bryggjuballinu!

Klikkað stuð á bryggjuballinu!

„Þetta er búið að vera hreint ævintýri” sagði Ingi Rafn Ólafsson um Landnemamótið sem fer fram í Viðey nú um helgina. „Það er merkjanlegur uppgangur í skátastarfinu því hér um helgina eru 300 skátar við leik og störf í þessu frábæra umhverfi”.

Um árabil hafa Landnemar boðið til Viðeyjarmóts í Viðey og hefur mótið verið einn af föstum punktum sumarstarfs skáta á höfuðborgarsvæðinu. „Það er langt síðan að mótið hefur verið jafn vel sótt og nú” segir Hulda Rós Helgadóttir en þau Ingi Rafn eru bæði mótsstjórar mótsins, enda kynjakvóti í ábyrgðastöðum alveg á hreinu hjá Landnemum. „Hér eru að venju skátar af höfuðborgarsvæðinu en við höfum líka hjá með okkur frábæra gesti frá Skátafélaginu Stíganda í Búðardal og Erninum í Grundarfirði og það er auðvitað ánægjulegt.

Ingi Rafn bætir við að nú sé um sömu helgi flott skátamót fyrir norðan. „Það hefði verið hrein snilld að fara með okkar skáta norður, langt síðan að þar hefur verið haldið mót en því miður hittist þetta á sömu helgi og við ættum pottþétt að spjalla saman fyrir næstu sumur og raða okkur niður á helgar þannig að þeir skátar sem hafa aðstæður til geti tekið þátt í sem flestum skátamótum”. „Svo er auðvitað landsmót skáta á Úlfljótsvatni næsta sumar”, segir Hulda Rós. „og þá hittum við okkar góðu vini að norðan og leggjum á ráðin”.

Sexhundruð hendur á lofti.

Sexhundruð hendur á lofti.

Hótel Jörð

Samkvæmt venju hefur hvert skátamót sitt þema og sínar áherslur og að þessu sinni hafa Landnemar ákveðið að yfirskrift Landnemamóts 2015 sé „Hótel Jörð“. Ingi Rafn, sem nú er í hlutverki mótsstjóra annað árið í röð, segir að þemað sé brýnt og eigi erindi við okkur öll. „Við erum að vísa til þess að við búum á þessari einu jörð og við verðum að fara vel með hana” segir Ingi Rafn. „Þannig endurspeglar öll okkar dagskrá þetta þema” bætir Helga Rós við. „Við veltum fyrir okkur hlutum eins og flokkun á sorpi, orkunýtingu og orkusóun og vinnum fjölbreytt verkefni sem snúa að þessum mikilvægu málaflokkum”.

Ægisbúar voru fremstir í fjörinu.

Ægisbúar voru fremstir í fjörinu.

Frábær dagskrá

Allt frá því að mótssvæðið opnað á föstudag hefur verið frábær dagskrá í boði. Á föstudagskvöld var stórleikur sem seint mun gleymast þeim sem tóku þátt og á laugardag unnu skátarnir að fjölbreyttum verkefnum sem tengdust öll þema mótsins.

Hápunktur mótsins, nú sem endranær, var hið margrómaða bryggjuball á laugardagskvöld. Þar dunaði dans og söngur og allir tóku þátt.

Ingi Rafn Ólafsson

Ingi Rafn Ólafsson

Mikilvægt að halda tengslum

„Ég hef ekki tök á því að taka þátt í reglulegu starfi Landnema en mér þykir dýrmætt að halda tengslum og upplifa skátaævintýrið í gegnum Viðeyjarmótin” segir Ingi Rafn sem er annar mótsstjóra mótsins en hann var einnig mótsstjóri á síðasta ári. „Fyrir mig er gott að taka að mér svona afmarkað og tímabundið verkefni sem hefur skýrt upphaf og endi, gerir félaginu mínu gott og vonandi öllum þeim sem taka þátt”.

Topp fólk í öllum stöðum

„Við erum með topp-fólk í öllum lykilstöðum og það hefur skilað sínu hér á þessu móti“ segir Haukur Haraldsson úr baklandi Landnema. „Ingi Rafn er þaulreyndur stjórnandi úr atvinnulífinu og Hulda Rós var að ljúka sínu háskólanámi í vor frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ og þau hafa unnið frábært starf“ segir Haukur aðspurður um mótsstjórana tvo.

Sirrý og Haukur með blik í augum.

Sirrý og Haukur með blik í augum.

„Sér til fulltingis hafa þau góðan hóp skáta sem mynda mótsstjórn sem ber ábyrgð á gangi mála, sum eru reynsluboltar og önnur að stíga sín fyrstu skref og þannig á þetta að að vera. Þau reynslumeiri miðla til þeirra sem minni þekkingu hafa og þeim sem falin er ábyrgð í fyrsta sinn fá það tækifæri að læra af reynslunni, því sem vel gekk og því sem betur má fara og það er styrkurinn í okkar starfi, þannig byggjum við upp okkar fólk“ segir Haukur og er ánægður með mótið.

Opnum fleiri leiðir

Haukur bætir við að mikilvægt sé fyrir skáta að opna fleiri leiðir fyrir fullorðna til að nálgast skátastarfið sjálft. „Hér í kvöld kom hópur af fólki með ferjunni til að taka þátt í mótinu, sum hver elduðu sér kvöldmat á sameiginlegum langeld en aðrir létu sér nægja að mæta á kvöldvökuna sem heppnaðist frábærlega vel. Við mættum örugglega vinna betur í því að boða fleiri, kynna betur að allir væru velkomnir og jafnvel að markaðssetja sérstaklega viðburði sem þessa”.

Blaðamaður Skátamála er sammála Hauki eftir að hafa upplifað notalega „skátakakóstund“ í Landnematjaldinu. Þar var spjallað, fólk kynntist og ég held meira að segja að að einhver hafi boðið sig og sinn tíma til að liðsinna skátafélaginu.

/gp

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar