Borgnesingar kveðja veturinn

Það var mikið líf og fjör í Borgarnesi í gærkvöldi þegar skátar fjölmenntu í félagsmiðstöðina Óðal og sungu burt veturinn.

Kiddi Jói er bjartsýnn á frekari fjölgun!

Kiddi Jói er bjartsýnn á frekari fjölgun!

Ríflega 80 manns voru samankomin í félagsmiðstöðinni og var gaman að sjá hvað vel var mætt af foreldrum og eldri skátum. „Það er bara bjart yfir starfinu hér”, sagði Kiddi Jói kampakátur með hvernig til tókst. „Við erum að gera okkar besta til að virkja fleira fullorðið fólk með okkur í starfið og þeirri vinnu miðar ágætlega”. Fram kom að mikill hugur er hjá stjórnendum skátafélagsins að fá Gilwell-skólann til að setja upp sérstakt námskeið fyrir Vesturland með haustinu og er það verkefni komið vel á veg.

Borgnesingar eiga góða að

Skátastarf í Borgarnesi á sér langa sögu og eins og víða annars staðar hefur starfið gengið í sveiflum en nú er greinileg uppsveifla ef marka má mætinguna á kvöldvökuna. „Við búum svo vel að eiga góða aðila að víða og má sem dæmi nefna Smiðjuhópinn sem hefur verið óþreytandi við að koma til okkar og aðstoða með hvers kyns dagskrá í gegnum tíðina” bætti Kiddi Jói við. Félagar úr Smiðjuhópnum mættu til leiks í gærkvöldi og stýrðu kvöldvökunni og aðstoðuðu á ýmsa lund.

Músík og myndband

Það var hressilega tekið undir í söng og skemmtiatriðin voru svo sannarlega á sínum stað. Meðal annars var sýnt skemmtilegt myndband úr síðustu útilegu fálka- og dróttskáta og var það mál manna að gaman væri að gera meira af slíku efni til að sýna á myndrænan hátt þau ævintýri sem bíða þeirra sem takast á við áskorun skátastarfsins.

Skátarnir tóku vel undir í söngnum.

Skátarnir tóku vel undir í söngnum.

Dýrmætur vettvangur

Að lokinni kvöldvöku var boðið upp á kakó og kex að skátasið og gott tækifæri gafst fyrir fullorðna fólki að ræða málin. „Svona uppákoma er dýrmæt fyrir okkur“ segir Kiddi Jói. Hér er vettvangur fyrir alla starfandi skáta að koma saman eina kvöldstund, skemmta sér og öðrum og ekki er síður dýrmætt fyrir okkur að fá tækifæri til að spjalla við þá foreldra og eldri skáta sem hingað komu í kvöld“.

 

Frá kvöldvökuslitum.

Frá kvöldvökuslitum.

 

 

„Hjálparkokkarnir”: Ævar, Guðmundur, Sturla, Gunni og Gauti.

„Hjálparkokkarnir”: Ævar, Guðmundur, Sturla, Gunni og Gauti.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar