„Ég held að svona ferð búi okkur betur undir að taka á móti og sinna alþjóðlegum skátahópum,“ segir Guðmundur Finnbogason framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni en hún tekur þátt í þróunarverkefni fimm skátamiðstöðva í Evrópu. Hann og Elín Esther dvöldu í febrúar viku í útilífsmiðstöð á Írlandi nýverið og komu heim með góðar hugmyndir og fyrirmyndir i farteskinu.
Gummi í háloftabraut
Gummi í háloftabraut

Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni átti frumkvæðið að þróunarverkefninu sem hefur það markmið að útbúa gæðadagskrá og tryggja gæðarekstur.  Þjónustan er skoðuð út frá þremur þáttum sem eru öryggismál, óformlegt nám og aðgengi fyrir alla.

Upplifa það sem viðskiptavinurinn upplifir

Útilífsmiðstöðvarnar sem taka þátt senda tvo fulltrúa í vikuheimsókn til hinna miðstöðvanna þar sem þeir prófa dagskrána og koma í kjölfarið með uppbyggilega gagnrýni á hana. Þannig læra bæði gestgjafarnir hverju sinni og gestirnir ótrúlega mikið á stuttum tíma.

Guðmundur segir að þetta gefi mjög góða raun. Stundum þegar svona verkefni séu framkvæmd verði þau að hálfgerðri pappírsæfingu því þátttakendur fá ekki að upplifa það sama og gestirnir. „Með því að prófa dagskrána á eigin skinni er auðveldara að sjá hvað má betur fara og einnig hvað er vel gert. Það gefur líka mun betri innsýn inn í starfsemi miðstöðanna að fá heila viku til að meðtaka allt frá bókun og kynningu til framkvæmdar og endurmats,“ segir Guðmundur sem er mjög ánægður með frumkvæði þeirra á Úlfljótsvatni.

Danmörk, Svíþjóð, Bretland, Írland og Úlfljótsvatn

Miðstöðvarnar sem taka þátt í þessu verkefni eru: Hauens Odde í Danmörku, Vassaro í Svíþjóð, Ferny Crofts í Bretlandi, Larch Hill í Írlandi og Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni.  Verkefnið tekur hátt í tvö ár og byggir fyrst og fremst á gagnkvæmum heimsóknum.

Kassaklifur er alltaf spennandi
Kassaklifur er alltaf spennandi
Merktar gönguleiðir eru vinsælar
Merktar gönguleiðir eru vinsælar

Fyrsta heimsókn Guðmundar og Elínar Estherar var til Larch Hill á Írlandi í lok febrúar og segir   Guðmundur að það hafi verið mjög fróðleg heimsókn þar sem þau fengu á einni viku að skoða allt frá bókunarkerfinu yfir í að prófa háloftabrautina. „Við fengum frábæra innsýn inn í rekstur og rekstrarfyrirkomulag miðstöðvarinnar sem var mjög áhugavert. Það gaf okkur ákveðna sýn á þá vinnu sem við erum að vinna hér heima og setti hlutina betur í samhengi, sérstaklega með tillit til gesta okkar sem eru að koma frá Evrópu,“ segir hann.

 Skriðdrekabeltasnjóþotur og náttúruverkefni

„Við fengum líka að sjá og prófa ýmsa dagskrárliði sem að við erum ekki að keyra hér heima svo sem  grassleða, sem eru einskonar snjóþotur á skriðdrekabeltum og geoCaching þar sem GPS tæki eru notuð til að finna pósta. Við prófuðum líka dagskráratriði sem að við erum að sinna hér eins og klifurturninn og kassaklifur. Þar gátum við líka lært ýmislegt um það hvernig við getum gert betur eða hreinlega að við erum bara að standa okkur mjög vel. En það er líka gaman að sjá að við erum að gera góða hluti,“ segir Guðmundur

Næsta heimsókn verður til Danmerkur í lok apríl. Þá verður fókusinn á náttúruverkefni ýmiskonar en Guðmundur segir að Danirnir séu að  standa sig mjög vel í þeim verkefnum.