Um síðustu helgi var haldin námskeiðs- og samveruhelgi skátaforingja, þeirra sem sitja í stjórnum skátafélaga eða eru í baklandi skátastarfsins, auk annarra áhugasamra 18 ára og eldri.  Þátttaka var nokkuð góð, en 53 skátar blönduðu geði um helgina og lögðu sumir á sig fyrstu hálku haustsins á leið sinni yfir Bröttubrekku að Laugum í Sælingsdal.
Myndasafn er neðst í frétt.

IMG_2227

IMG_2417

Þátttakendur voru frá 16 skátafélögum og voru flestir frá Klakki og Mosverjum. Dagbjört Brynjarsdóttir, sem hélt utan um skipulagningu helgarinnar með glæsibrag og áhuga, segir að aldursdreifingin hafi verið frá átján ára til ca. 50 ára. „Þó virtist ekki vera neinn aldursmunur,“ segir hún. „Allir jafnir, ungir sem aldnir.“

Dagskrá dró dám af þátttakendum

Til að mæta þeirri breidd sem búast mátti við í áhugasviði þátttakenda var dagskráin keyrð með fjórum möguleikum í hverju dagskrárbili og var þar blandað saman fyrirlestum og verklegum póstum. Tækifærið var notað og fengu þátttakendur að reyna á eigin skinni nýju hvataspjöldin sem almennir skátar fá í sínu starfi.  Við innskráningu fékk hver og einn spjald sem hengt var upp á vegg og þar með hófst söfnun á límmiðum fyrir verkefni helgarinnar.

Dagbjört segir að þegar fyrirlestrar voru endanlega valdir hafi verið unnið með hverjir voru búnir að melda sig. Meðal annars tóku Fossbúar og Mosverjar að sér að leiða umræður um fullorðna í skátastarfi. Heimalingar sem eru sjálfboðaliðar í ungmennabúðum að Laugum sáu um nokkra dagskrárlíði og Jörgen, staðarhaldari að Laugum sá um leikjastjórn á sunnudeginum

Fagráðin hjá BÍS nýttu helgina til að kynna ýmsa hluti eins og nýju rekka- og róverdagskrána, verkefnið tengt kynningu á nýju skátaheiti, landsmótið og nýja hvatakerfið. Einnig var brugðist við óskum og opnuð umræða um skátabúninginn og hver hans framtíð ætti að vera. „Fólk var með mismunandi skoðanir á hlutunum og ekki allir sammála en fyrir mig og Upplýsingaráð að þá var þetta mjög góð og gagnleg umræða því það er gríðarlega mikilvægt fyrir alla undirbúningsvinnu í kringum búninginn að við höfum einhverja hugmynd um hvað fólkið í hreyfingunni vill,“ segir Heiður Dögg Sigmarsdóttir í upplýsingaráði BÍS.

Kvöldvaka og samflot

Hápunktur helgarinnar var að sögn viðmælenda Skátamála tvímælalaust samflotið í lauginni. Dagga segir að líklega hafi flestir þáttakendur hafi notað tækifærið og prófað og mikil ánægja með hann og almennt var sundlaugin mikið notuð kvölds og morgna og allt þar á milli.  „Það var geggjað að fljóta um í sundlauginni með skrítna flothettu og eyrun ofan í vatninu að hlusta á tónlist og líta beint upp í himininn á snjókornin sem féllu ofan í laugina. Við sem prufuðum þetta vorum öll mjög ánægð með þennan nýja en vonandi varanlega dagskrárlið,“ segir Heiður.

Kvöldvakan var á sínum stað á laugardagskvöldinu eftir veislukvöldverð sem Eiríkur Mosverji galdraði fram. „Fulltrúar Klakks á svæðinu sýndu og sönnuðu að norðanskátar eru snillingar þegar kemur að kvöldvökum,“ segir Dagga.

IMG_2293

Breiðfylking dagskrárviðburða

IMG_2257Til að gefa þeim sem ekki komust hugmynd af dagskránni er hér stiklað á stóru um hana.

 • Gönguferð í góða veðrinu eftir merktum gönguleiðum. Umsjón: Heimalingar
 • Hvataspjöldin og hvatakerfið.  Kynning á nýju hvatakerfi. Hver er munurinn á flokks- og sveitarverkefnum? Og hvað með drekana – þeir starfa ekki í flokkum. Þátttakendur fengu að prófa á eigin skinni. Umsjón: Dagskrárráð
 • WOSM Europe. Chip – Veerle Haverhals er tengiliður BÍS í Evrópustjórn WOSM og var hún með fyrirlestur þar sem hún ræddi áherslur evrópustjórnar og stöðu skátastarfs í Evrópu. Umsjón: Alþjóðaráð.
  Sjá einnig viðtal við Chip á Skátamálum:  Við eigum að hjálpa.
 • Landsmótspanic var fyrir þá sem vildu kynna sér hvað skátafélögin þurfa að gera til að vera vel undirbúin. Mótsstjórn kynnti félögunum hvað það er sem þau þurfa að gera til að vera með allt á hreinu. Umsjón: Landsmót skáta 2016
 • IMG_2245Starfsgrunnur rekka- og róverskáta  var kynntur og unnið með spurningar eins og „Mega þau ekki bara vera foringjar?“ „Við getum ekki verið með rekkasveit – við erum svo fá….“.  Umsjón: Dagskrárráð
 • Í fréttum er þetta helstHvað einkennir góða frétt og hvernig komum við henni á framfæri.  Umsjón: Upplýsingaráð
 • Hreyfing var í boði og þátttakendur hvattir til að nýta sér þrautabrautina á Laugum sem er einstaklega skátaleg og skemmtileg.  Umsjón: Heimalingar
 • Erfiði skátinnHvernig á sveitarforingi að takast á við frávik barna? Hvort sem það er ADHD eða einstaklingur á einhverfurófi. Hvað ef skáti er með sykursýki – þarf þá að útbúa allan mat sérstaklega?  Hanna, starfsmaður Skátamiðstöðvarinnar fór yfir þessi mál.
 • Lýðræðisleikir  Farið var yfir af hverju lýðræðisleikir eru notaðir í skátastarfi?  Nýir voru kenndir og þáttakendur skiptust á hugmyndum.  Umsjón: Dagskrárráð
 • Alþjóðastarfið var kynnt og þeir möguleikar sem skátum standa til boða. Rætt var um hvernig við komum á tengingum og farið yfir þá styrki sem standa til boða.  Umsjón: Alþjóðaráð
 • Til hvers að hafa fullorðna í skátastarfi?  Fossbúar og Mosverjar sem hafa góða reynslu af starfi fyrir fullorðna leiddu þessa umræðu og sögðu frá hvernig þau hafa skátastarfið með fullorðnum.  Umsjón: Mosverjar og Fossbúar
 • Skátar og skátaheit. Á Skátaþingi 2015 var kosið og samþykkt valkvætt skátaheit, en hvernig eigum við að koma því til skila til skátanna okkar. Hvernig eigum við að kenna og útskýra fyrir þeim hvers vegna og hvernig? Umsjón: Fríður Finna og Vinnuhópur um skátaheit
  IMG_2506
 • Búbblubolti. Boðið var upp á þessa nýjung fyrir þá sem vildu koma adrenalíninu á hreyfingu og skemmtasér.  Skátaland bauð upp á Búbblubolta í íþróttahúsinu. Umsjón: Jón Andri
 • Laugum okkur með Guðrúnu.  Aðeins spöl korn frá húsnæðinu sem dvalist var í er nátturulaug sem Guðrún Ósvífudóttir notaði á landnámsöld til að lauga sig og þaðan dregur staðurinn nafn sitt. Margir nutu þess að fara í náttúrlaugina með Heimalingum.
 • Útieldun og kleinusteikingar. Sigurlaug kenndi réttu handtökin við kleinubakstur og Dagga var með Hollending yfir eldinum.  Umsjón: Sigurlaug og Dagga
 • Afslöppun. Kynning á Jóga var hjá Liljari og slökun á eftir. Þeir sem það kusu gátu einnig farið og lagt sig í kojunni sinni.  Umsjón: Liljar og kojan þín
 • IMG_2574Vinabandagerð. Kennd voru bæði sígild og nýjar tegundir af vinabandahnýtingum. Umsjón: Friðrik, Gunnar Ingi og Maríanna
 • „Do it like Bear Grills“.  Þessi dagskrárliður dregur nafn sitt af skátahöfðingja Breta, Bear Grills, er öllum stundum með „survivor bracelet“ úr paracord línu. Það getur hann svo sprett upp og notað sem lifsbjörg, tjaldbjörg eða eitthvað annað sem hugsanlega gæti þurft línu í. Þetta er skemmtilegt að gera með skátunum og hér færðu tækifæri til að læra að búa til „survivor bracelet“.  Umsjón: Dagga
 • Grillaðar súrringar. Það þarf ekki trönur til að byggja tjalbúð og hér var boðið að gera líkan af lang flottustu tjaldbúðinni úr grillpinnum og dóti. Umsjón: Dagga
 • Leikjastjórn. Það er ekki öllum gefið að geta stjórnað stjórum hóp í leik. Reynslubolti miðlar af kunnáttu sinni og reynslu.  Umsjón: Jörgen, staðarhaldari að Laugum sá
 • Sigið á næsta stig. Boðið var upp á „advanced“ klifur og sig fyrir þá sem eru aðeins lengra komnir.  Umsjón: Jón Andri
 • Félagaráð. Á síðasta skátaþingi var kosið um nýtt ráð, Félagaráð. Það kynnti sig og setti fókus á spurninguna hvað það geti gert fyrir skátafélögin.  Umsjón: Félagaráð
 • Kynningar. Ýmsar kynningar eins og t.d. Skátapepp og íslenski fararhópurinn á World Scout Moot (WSM) 2017.

Áframhaldandi Bland

Viðburðurinn sem heitir „Bland í poka“ féll niður fyrir ári síðan, en kemur greinilega sterkur inn núna í ár.  „Að mínu mati ætti þessi helgi að halda áfram að vera í boði því mér finnst rosalega gott að fá heila helgi með öðrum foringjum þar sem hægt er að ræða saman um starfsemina okkar. Þetta er líka eitt af fáum tækifærum á árinu að Reykjavíkurskáti eins og ég fær að hitta skátana úti á landi og fá að heyra hvernig gengur hjá þeim. Svo er þetta líka svo hrikalega skemmtileg helgi,“ segir Heiður.

Dagbjört segir að Skátamiðstöðin sendi endurmat á dagskrá helgarinnar og búast má við að sú endurgjöf nýtist við að ákveða framhaldið.

Ljósmyndir