Betri myndir af skátum

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að hafa góðar myndir að vinna með til að ná árangri í kynningarstarfi,“ segir Birgir Ómarsson auglýsingahönnuður, en hann og Sigurður Ó. Sigurðsson ljósmyndari eru þessa dagana að taka myndir af krökkum í skátastarfi og verða þær notaðar í kynningarefni í haust.

Upplýsingaráð er með í undirbúningi leiðbeiningar um ímyndarmál en sú vinna var kynnt á félagsforingjafundum sl. haust. Hluti þeirrar vinnu er myndataka af skátum í starfi, bæði inni og úti og er þetta hluti þess verkefnis. Búið er að taka myndir af drekaskátum og fálkaskátum, en þar voru það skátar úr Vífli sem sátu fyrir á fálkaskátamyndunum. Þeim þótti alveg orðið nóg um stússið í kringum myndatökuna því hinir kröfuhörðu fagmenn vildu góða lýsingu og rétta stemningu. Biggi sagði að það sem þau höfðu á endanum um framtakið að segja var stutt og laggott: „Fer þetta ekki að verða búið?“ og þá var brugðið á það ráð að fá þau til að taka af sér einn Selfí. Hann er ánægður með árangurinn af myndatökunum og vonast til að þær endurspegli það skemmtilega starf sem fram fer á skátafundum.

Birgir og Sigurður hafa unnið saman áður með góðum árangri og þá að kynningarefni fyrir Slysavarnafélagið Landbjörgu. Birgir er skáti úr Garðbúum og virkur í starfi hjá BÍS m.a. í upplýsingaráði og Sigurður er í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Þar var hann um skeið formaður og einnig ritstýrði hann um skeið blaði Landsbjargar. Þeir sem vilja dást að myndum hans geta fundið sýnishorn á vefsíðunni sigosig.com

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar