Bestu tónleikarnir til þessa

Líklega verða þetta einir bestu tónleikar sem við höfum haldið segir talsmaður Skátakórins, en félagar hans hafa í vetur æft úrval laga úr íslenskum og erlendum kvikmyndum og munu flytja á vortónleikum sínum næstkomandi þriðjudag 13. maí. Tónleikarnir verða haldnir í skátaheimili Hraunbúa í Hraunbyrgi í Hafnarfirði og hefjast þeir kl. 20.
Kvikmyndatónlist er þema tónleikanna

Kvikmyndatónlist er þema tónleikanna

 Efnileg söngkona og eigin kórhljómsveit

Með Skátakórnum á tónleikunum verður ung og efnileg söngkona, Þórunn Þórðardóttir.  Hún er skáti í Hraunbúum og hefur verið að gera það gott í söngvakeppnum í Hafnarfirði, Menntaskólanum við Hamrahlíð og víðar.  „Þetta er í fyrsta skiptið sem við bjóðum ungum skáta að syngja með okkur á tónleikum og erum mjög ánægð með að fá Þórunni.  Það er mjög í anda Skátakórsins að skapa vettvang fyrir unga skáta í tónlist til að koma fram og sýna hvað í þeim býr,“ segir Sigurður Viktor Úlfarsson formaður kórsins, sem leggur áherslu á tenginguna við skátana.

Það eru fáir kórar sem státa af eigin hljómsveit en með á tónleikunum verður einnig Gleðisveitin Dos Sardinas sem hefur verið starfandi undanfarin ár og spilað víða um land. Í sveitinni eru Guðmundur Pálsson, Eðvald Einar Stefánsson, Ragnar Harðarson, Haukur Harðarson og Páll Viggósson og koma þeir allir úr kórnum.

Yfirskrift hljómleikanna „We Have All the Time in the World“ vísar í samnefnt lag úr James Bond mynd sem Louis Armstrong gerð ódauðlegt á sjöunda áratugnum.  Á efnisskránni eru einnig lög eftir Bítlana, Stuðmenn og fleiri sem Skarphéðinn Þór Hjartarson kórstjóri kórsins hefur útsett sérstaklega fyrir Skátakórinn.  „Þarna verða lög eins og A Hard Days Night, Elanor Rigby, Taktu til við að tvista, Haustið ´75, Allur lurkum laminn, Vegir liggja til allra átta, Önnur sjónarmið og fleiri flott lög sem allir þekkja.“ segir Sigurður.

 Öflugt og fjölbreytt starf fyrir fullorðna skáta

Í Skátakórnum starfa um 35 manns, 30 ára og eldri, allt árið um kring.  Í sumar fer kórinn á landsmót skáta, í kórútilegu á Úlfljótsvatn og syngur á Menningarnótt í Reykjavík. Á veturna eru vikulegar kóræfingar auk þess sem við komum víða fram og söng kórinn til dæmis á styrktartónleikum í Háskólabíói fyrir viku síðan.  Flestir kórmeðlimir hafa verið skátar lengi en einnig hefur nýtt fólk gengið í skátana eftir að hafa sungið með kórnum. „Við leggjum áherslu á skátatenginguna.  Skátabúningurinn er okkar kórbúningur og við æfum í skátaheimili eins og hver önnur skátasveit.“ segir Sigurður.  Um þessar mundir sækir ein úr kórnum Gilwell námskeið en hún er að taka þátt í skátastarfi í fyrsta skiptið og vígðist í kórferð Skátakórsins. Meðlimir kórsins eru sumir virkir foringjar í skátafélögum, hjálpa til á landsmótum og víðar.

„Við héldum upp á 15 ára afmæli kórsins í fyrra með langri helgarferð til Edinborgar,“ segir Sigurður. „Þar sungum við tvenna tónleika, annars vegar sem gestir á vortónleikum vinakórs okkar í Edinborg og hins vegar eigin tónleika þar sem við söfnuðum fé til góðgerðamála.  Yfir 400 manns mættu á tónleikana.“

 Fjölbreytt efnisval

Kórinn æfir vikulega á þriðjudögum í Hraunbyrgi í Hafnarfirði og leggja sumir á sig langa ferð til að mæta á æfingar enda einn skemmtilegasti tími vikunnar. „Fjölbreytni er okkar aðalsmerki í tónlistinni. Við erum ekki poppkór, en við syngjum popplög, við erum ekki kirkjukór, en við syngjum í nokkrum skátamessum á ári og þótt við séum skátakór syngjum við ekki bara skátalög og vitnar dagskrá tónleikana um það“ segir Sigurður kankvís.  „Við höfum tekið fyrir ákveðið þema á hverju ári og fyrir tveimur árum héldum við til dæmis tónleika bæði norðan og sunnan heiða með skátalögum Tryggva Þorsteinssonar í tilefni af 100 ára ártíð þess merka skátaskálds.  Í ár tókum við kvikmyndatónlist og kviknaði hugmyndin í fyrra í samtölum félaga í kórnum.  Dagskráin er mjög vel heppnuð í ár og líklega eru þetta einir bestu tónleikar sem við höfum haldið.“ segir hann.

Í stuttu máli:

Vorskemmtun Skátakórsins

Þriðjudaginn 13. maí kl. 20:00

Hraunbyrgi í Hafnarfirði

Miðaverð 1.000 kr. og innifaldar eru léttar veitingar.

vortonleikar-skatakorsins-s

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar