Aukin samfélagsþátttaka skáta

Formaður heimsstjórnar skáta, João Armando Gonçalves, er á leið til Íslands og á föstudag fundar hann með íslenskum skátum um nýja stefnu heimssamtaka skáta  – World Organization of the Scout Movement. Fundurinn sem verður kl. 16:00 á föstudag í Skátamiðstöðinni er öllum opinn, bæði skátum sem og öðru áhugafólki um uppbyggilegt æskulýðsstarf.

João Armando, sem tók við formennsku heimssamtakanna í ágúst á síðasta ári, hefur sterkar taugar til Íslands, en íslenskir skátar áttu stóran þátt í framboði hans.

 Ungt fólks taki ákvarðanir í auknum mæli

Á heimsþinginu sem kaus Joao til formennsku voru kynntar nýjar áherslur heimssamtakanna. Auk þess að eiga þátt í að móta nýju stefnuna kemur það í hlut hans að fylgja þeim eftir og innleiða. Það má því segja að ferskir vindar fylgi Joao hingað til Íslands.

Meðal þess sem hann hefur talað fyrir er aukin aðkoma ungmenna að ákvörðunartöku, bæði innan skátahreyfingarinnar sem utan.  Hann talar einnig fyrir aukinni samfélagslegri þátttöku skáta og samvinnu skátahreyfingarinnar út á við sem inn á við.

Þessar nýju áherslur ná til margra. Heimssamtök skáta (World Organization of the Scout Movement  – WOSM) starfa nú þegar í 160 löndum og innan vébanda hreyfingarinnar eru 40 milljón skátar.  Mikill stórhugur einkennir stefnuna og sem dæmi um það er að markið er sett á að fjölga skátum í 100 milljónir fyrir árið 2023.  Áhugavert verður á föstudag að heyra Joao segja frá hvernig á að ná þeim markmiðum.

Aukin samfélagsleg þátttaka skáta

Megináherslur  skátahreyfingarinnar sem Joao mun kynna eru meðal annars aukið samfélagslegt vægi skátahreyfingarinnar, en því á að ná bæði með óformlegri menntun og þjálfun til skáta, sem og með aukinni þátttöku skátahreyfingarinnar í samfélagslegum verkefnum og umhyggju fyrir umhverfi okkar.

Innan alþjóðahreyfingar skáta hefur, rétt eins og hér á Íslandi, átt sér stað nokkur umræða um skátaheit, sem í flestum löndum er lítið breytt frá því stofnandi skátahreyfingarinnar lagði línurnar fyrir rúmum hundrað árum síðan. Skátaheitið kveður víðast um heim á um að skátar geri skyldu sína við guð, en í seinni tíð heyrast þær raddir æ oftar að ekki sé rétt að halda of stíft í upphaflegt orðalag heldur vísa til andlegra gilda, sem síðan hver og einn geti fyllt upp í eftir sinni trúarsannfæringu.  Þannig náist sátt og eining og að allir geti átt samleið í öflugri uppeldishreyfingu.

João  Armando leggur mikla áherslu á samheldni skáta og hann segir að  virk þátttaka Bandalags íslenskra skáta í að taka nýja stefnu og aðlaga hana íslensku umhverfi sé ákaflega mikilvæg og byggi brýr milli skáta í heiminum.

Rannsóknarstaða í þátttöku ungmenna og skipulagsmálum

João Armando Gonçalves, hinn nýkjörni formaður heimssamtakanna er 51 árs aðstoðarprófessor frá Portúgal við Polytechnic School í Coimbra. Þar hefur hann stundað rannsóknir á þátttöku ungmenna og í skipulagsmálum. (Researcher in the field of Youth Participation and Urban Planning) Hann er giftur og á 3 börn.

João er kjörinn til að gegna formennsku til ársins 2017. Hann hefur lengi verið virkur í skátastarfi frá því hann gekk í skátana 1976 og varð skátaforingi 1987. Starfaði með skátafélaginu sínu í 13 ár þar til hann var kosin til starfa í landsstjórn í Portúgal, þar sem hans starfssvið var einkum starfsaðferðir skáta, Róverskátar, sjóskátar og stefnumótun.   Seinni árin hefur hann verið mjög virkur alþjóðlegu samstarfi, meðal annars hefur hann setið í heimsstjórninni frá 2011 en þar áður var hann í Evrópustjórn skáta frá 2004 – 2010.

Á þeim 6 árum sem hann sat í Evrópustjórn skáta bar hann ábyrgð á málaflokkum sem snúa að starfsaðferðum skáta, ungmennaþátttöku og viðburðum. Hann var einnig tengiliður við fjölmörg lönd innan Evrópu, meðal annars við Ísland.

Heimsmótið á Úlfljótsvatni undirbúið um helgina

João verður þó ekki eingöngu í stefnumótunarumræðu heldur mun hann einnig dvelja á Úlfljótsvatni  yfir helgina en þar ætla 40 sjálfboðaliðar að njóta samveru við undirbúning heimsmóts skáta – World Scout Moot –  sem haldið verður þar árið 2017. Joao var dyggur stuðningsmaður þess að mótið yrði haldið hér á landi.  Hann telur að íslenskir skátar hafi allt sem til þarf að bjóða uppá hágæða heimsviðburð.

World Scout Moot verður stærsti viðburður íslenskra skáta til þessa með um 5.000 þátttakendum og fjölda sjálfboðaliða í bakvarðasveitum.  Stuðningur João og heimsókn hans til Íslands mun hjálpa til að kynna mótið og ná markmiðum um góða þátttöku.

Tengt efni:

Stefna heimssamtakanna – WOSM (World Organization of the Scout Movement)    http://scout.org/mission

Stefnan útskýrð: https://www.youtube.com/watch?v=yYy2tWsyiFI

Yfirlitsmyndir frá 2011 – 2014 í heimsstarfi skáta: https://www.youtube.com/watch?v=GStO8GyZERQ

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar