Auka stuðning við skátafélögin

Hverjar eru óskir og þarfir þeirra sem stýra starfi skátafélaganna í landinu? Hvernig þjónustu og stuðning þurfa félögin til að skátastarfið dafni?  Þessar spurningar voru leiðarljós stjórnar Bandalags íslenskra skáta (BÍS) og forsvarsmanna Skátamiðstöðvar í heimsóknum þeirra til skátafélaganna.

Stjórn og starfsmenn náðu á fjórum vikum í september og október að heimsækja 26 skátafélög og hringnum verður svo lokað á næstunni. Einn stjórnarmaður og einn starfsmaður fóru í hvert félag.

„Tilgangur með heimsóknunum var að hlusta á óskir þeirra sem stjórna starfi skátafélaganna og hvaða þjónustu brýnast er að fá frá Skátamiðstöðinni,“ segir Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri Skátamiðstöðvarinnar  „Sjónarmið skátafélaganna hafa áhrif á hvernig þjónustan verður því við viljum breyta okkar áherslum til að mæta þörfum skátastarfsins.“

Góð mæting var á námskeið sem haldið var í haust fyrir stjórnir skátafélaga

Góð mæting var á námskeið sem haldið var í haust fyrir stjórnir skátafélaga

Fyrirmyndarstarf hjá mörgum skátafélögum

Stjórn og starfsmenn hafa á grundvelli upplýsinga úr heimsóknunum dregið upp heildarmynd af stöðu skátastarfsins í landinu. „Það er ánægjulegt að öll skátafélögin standast lágmarksviðmið um að vera starfshæf og geta náð markmiði sínu um að skapa umgjörð fyrir börn og ungmenni að verða sjálfstæðir, ábyrgir, virkir og hjálpsamir einstaklingar í samfélaginu,“ segir Hermann.

Til að meta stöðuna var horft til nokkurra velgengisþátta í starfi og umgjörð skátafélaga.  Meðal annars hvernig stjórn félagsins hagar starfi sínu og hvort góð virkni sé innan stjórnar; hvernig félagið útfærir og stendur að starfsgrunni og útfærir dagskrá skátanna, sem og hvernig félagið fylgir eftir þjálfun og fræðslu sinna leiðtoga og skátaforingja.  Þá er einnig horft til fjölda starfandi skáta og hvernig bakland félagsins er, hvort foreldrastarf sé virkt og hvort góð tengsl séu við hópa eldri skáta. Einnig koma inn í matið praktísk mál eins fjárhagsstaða félaganna, húsnæðismál og hvort félagið njóti stuðnings sveitarfélagins.

Á grundvelli framangreindra velgegnisþátta var skátafélögunum skipt í þrjá hópa. Í þeim fyrsta eru fyrirmyndarfélög og það er um fimmtungur skátafélaga.  Í miðhópnum er meirihluti skátafélaga eða um 60% og þurfa mörg þeirra ekki miklu að breyta til að ná upp í fyrirmyndarflokkinn. Í þriðja hópinn falla félög sem þurfa í mörgum tilfellum mikinn stuðning og er hann jafn stór og fyrirmyndarflokkurinn eða 20%. Hermann segir að þessar niðurstöður eigi í sjálfu sér ekki að koma á óvart og skiptingin sé nokkuð svipuð og gerist í öðrum löndum Evrópu.

•Mikil þörf er á stuðningi við innleiðingu á starfsgrunni fyrir drekaskáta, fálkaskáta og dróttskáta.

• Mikil þörf er á stuðningi við innleiðingu á starfsgrunni fyrir drekaskáta, fálkaskáta og dróttskáta.

„Stefnan er að sjálfsögðu tekin á að lyfta öllum félögum upp í fyrirmyndarflokkinn og víða þarf ekki mikið til þess,“ segir Hermann. Í samvinnu við hvert skátafélag verður gerð áætlun um næstu skref, ef hún er ekki þegar til.

Ábendingar eru hvatning

Í heimsóknunum var eins og áður segir kallað eftir ábendingum forsvarsmanna skátafélaganna um það sem betur má fara í rekstri og þjónustu Bandalags íslenskra skáta og Skátamiðstöðvarinnar. Stuðningur við starfsgrunninn, foringjaþjálfun, beinn stuðningur við stjórnir skátafélaga og kynningarmál er meðal þess sem kallað er eftir.

  • Mikilvægt að ljúka vinnu við starfsgrunn fyrir rekkaskáta og róverskáta, en sú vinna er langt komin.
  • Mikil þörf er á stuðningi við innleiðingu á starfsgrunni fyrir drekaskáta, fálkaskáta og dróttskáta. Lykillinn að þeim stuðningi er að gefa út stoðefni í kringum hvatakerfið.
  • Efla þarf foringja- og leiðtogaþjálfun fyrir skáta á aldrinum 13- 22 ára.
  • Gefa þarf út frekari leiðbeiningar um hvernig megi fá fleiri fullorðna til starfa.
  • Halda þarf áfram með þróun leiðtogaþjálfun fyrir 18 ára og eldri (Gilwell-skólinn).
  • Gefa þarf út leiðbeinandi viðmið í PR málum skátahreyfingarinnar og hagnýtt efni í þeim málum fyrir stjórnir og starfandi sveitaforingja.
  • Efla þarf þjónustu Úlfljótsvatns við skátafélögin í landinu.

Hermann segir að það sé mjög gott að fá skýran óskalista og hann færi aukinn kraft í starf Skátamiðstöðvarinnar.  Margt sem unnið hefur verið að á síðustu mánuðum sé í höfn. Þannig var til að mynda almenn ánægja meðal þeirra skátafélaga sem fengið hafa söfnunarkassa fyrir utan skátaheimilin vegna skilagjaldskyldra umbúða frá Grænum skátum og einnig er leiðtogaþjálfun 23 ára og eldri víða farin að skila sér, sem sé hvating um að halda áfram á þeirri braut. Frá skátafélögunum kom einnig hvatning og hrós fyrir það sem hefur verið vel gert.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar