Áskorun ÆV til yfirvalda um rafræna uppflettingu í sakaskrá

25. september sendi Stjórn Æskulýðsvettvangsins frá sér áskorun til yfirvalda sem hljómar svona:

 

Vegna ítrekaðara frétta af kynferðisafbrotamönnum og barnaníðingum sem hafa fengið uppreist æru og öðlast starfsréttindi sín á ný og þar með átt auðvelt með að snúa til fyrri starfa vill Æskulýðsvettvangurinn koma eftirfarandi áskorun til yfirvalda á framfæri.

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 segir í 3. – 4. mgr. 10. gr.: „Óheimilt er að ráða til starfa hjá aðilum, sem 2.gr. tekur til og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi, einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegnar brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940“ sem fjallar um kynferðisbrot.

Öll aðildarfélög Æskulýðsvettvangsins gera þá kröfu til sinna sjálfboðaliða og starfsmanna sem vinna með börnum og ungmennum að þeir skili inn samþykkt fyrir því að þeirra aðildarfélag hafi heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá um hvort þeir hafi hlotið slíkan refsidóm.

Æskulýðsvettvangurinn hefur um árabil barist fyrir því að ferlið til uppflettingar úr sakaskrá ríkisins verði einfaldara og skilvirkara m.a. á þann veg að aðildarfélög geti gert það rafrænt. Sú vinna hefur ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir og eru það mikil vonbrigði þar sem um er að ræða eitt stærsta barnaverndarmál íslensks samfélags.

Af fréttaflutningi síðustu daga er ljóst að enn fleiri galla má finna á kerfinu sem á að sinna eftirliti og forvörnum þegar kemur að því að tryggja hagsmuni barna og ungmenna. Í ljósi þess skorar stjórn Æskulýðsvettvangsins á íslensk yfirvöld að bregðast strax við og koma þeim forvörnum og því eftirliti sem þeim ber að sinna í lag. Stjórnin skorar á yfirvöld að ljúka ferlinu um rafræna uppflettingu í sakaskrá og grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að þeir sem hafa gerst sekir um kynferðisbrot komist ekki í starf með börnum og ungmennum. Slíkt á aldrei að vera möguleiki, börnin eiga alltaf að njóta vafans.

Eins og áður er Æskulýðsvettvangurinn tilbúinn til samvinnu við yfirvöld við að ljúka þessum málum.

 

F.h. Æskulýðsvettvangsins,

___________________________
Auður Inga Þorsteinsdóttir,
Formaður Æskulýðsvettvangsins

 

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagins Landsbjargar. Hlutverk Æskulýðsvettvangsins er að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna og stuðla að heilbrigðum, uppbyggjandi og vönduðum aðstæðum í æskulýðsstarfi. Tilgangur og markmið félagsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna m.a. á sviði fræðslu- og forvarnarmála er snúa að hagsmunum barna og ungmenna í æskulýðsstarfi.

 

:: Smellið hér fyrir heimasíðu Æskulýðsvettvangsins

:: Smellið hér fyrir “ábyrgt æskulýðsstarf”( lög og reglugerðir BÍS) er varðar vinnu með börnum og ungmennum

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar