„Ég er mjög ánægð með árangur fræðsluátaks síðustu tveggja ára“ segir Ingibjörg Hannesdóttir, fráfarandi fræðslustjóri Skátamiðstöðvarinnar, sem hverfur til annarra starfa nú í október. „ Mikil vakning hefur verið í skátafélögum um allt land um mikilvægi endurmenntunar sveitarforingja og annarra sjálfboðaliða og þau félög sem hvað mest hafa nýtt sér fræðsluframboð standa sterk og eru að halda sínu eða auka þátttakendafjölda verulega“.  Það sé þróun líkt og gerst hafi erlendis í slíkri uppbyggingu. Einnig tali tölur sínu máli, mikil aukning í þátttakendatölum á námskeiðum og fræðslukvöldum Skátamiðstöðvarinnar sýni meiri áhuga og aukna fagmennsku félaganna.

Gæði skátastarfs mikilvæg

Ingibjörg segir umræðuna um gæði skátastarfsins hafa vaxið mikið frá því að hún hóf störf sumarið 2012. „Skátafélög hafa verið að styrkja innviðina og það er að sjálfsögðu best gert með símenntun og jákvæðu viðhorfi“. Innleiðingu starfsgrunnsins í félögum segir Ingibjörg hafa farið vel af stað, flest félög séu nú komin með það viðhorf að til að ná stöðugleika og vexti sé vænlegt að feta í fótspor erlendra skátafélaga sem hafa verið að taka upp stefnu WOSM í uppbyggingu í gegnum fræðslu og sterkan starfsgrunn.

Mikilvægt að hampa því sem vel er gert

„Við skátar verðum að líta til þess sem vel er gert“, segir Ingibjörg. „Það er sannarlega margt og almennt erum við með frábært fólk út um allt, bæði starfsmenn og sjálfboðaliða, sem er að vinna af heilum hug og miklum krafti að því að treysta innviðina og passa upp á að skátastarf sé af þeim gæðum að okkur sé sómi af“.

Ingibjörg hættir sem fræðslustjóri nú um mánaðarmótin. „Ég er stolt af þeim árangri sem náðst hefur með því góða fólki sem ég hef unnið með hér í Skátamiðstöðinni og þeim sjálfboðaliðum sem ég hef unnið með, bæði hjá ráðum BÍS og úti í skátafélögunum. Ég hef trú á því að með því viðhorfi að hlúa sífellt að grunnstarfinu og vera vakandi yfir gæðum þess séu okkur allir vegir færir“.