Alþjóðleg þjálfun á vegum Moot sett á fulla ferð!

Moot-verjar eyða sínum sunnudögum í Skátamiðstöðinni þessa mánuðina enda stendur mikið til. Í gær prufukeyrði Mannauðsteymið þá þjálfunardagskrá sem allir sjálfboðaliðar mótsins þurfa að klára sig af til þess að geta orðið fullgildir.

 

Heiður Dögg og Birna Dís voru að sjálfsögðu á svæðinu

„Í gær fengum við myndarlegan hóp af íslenska starfsliðinu í Skátamiðstöðina til að prufukeyra þá þjálfun sem allt okkar starfsfólk þarf að ljúka fyrir mótið” segir Björn Hilmarsson, sjálfboðaliði í Mannauðsnefnd World Scout Moot 2017 en Björn og félagar í hans teymi bera ábyrgð á starfsmannamálum mótsins. Mótið er alheimsmót skáta á aldrinum 18-26 ára og fer að þessu sinni fram á Íslandi nú í sumar.

„Það eru liðlega 5.000 skátar frá 95 þjóðlöndum á leið til landsins og við þurfum vel þjálfað lið til að halda utan um verkefnið“ bætir Björn við.

Í spjalli við Björn kemur fram að mótið sé nú þegar með u.þ.b. 1.000 starfsmenn frá 90 löndum sem munu sinna margvíslegum þjónustustörfum fyrir mótið og allir þurfa þeir að ljúka umfangsmikilli þjálfun til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru.

Þríþætt þjálfun

Þessi þjálfun er í grófum dráttum þríþætt: Menningarvitund er einn þátturinn og í þeim hluta eru væntanlegir starfsmenn fræddir um mismunandi lífsviðhorf, sjálfsmat, verkefnastjórnun og fleira. Annar hluti þjálfunarinnar beinist sérstaklega að erlenda starfsfólkinu þar sem lögð er áhersla á fræðslu um náttúru Íslands, veðurskilyrði, útbúnað og annað sem skiptir máli þegar stunduð er útivist á Íslandi. Þriðji þáttur þjálfunarinnar og jafnframt sá mikilvægasti er námsefni sem nefnt er „Safe From Harm”. Það námsefni er að erlendri fyrirmynd og er skyldufag hvers sjálfboðaliða sem gefur kost á sér sem starfsmaður mótsins.

„Þetta efni þarf hver og einn að tileinka sér og útskrifast frá til að eiga möguleika á að verða með í hópnum. Þetta efni snýr að fræðslu á borð við einelti, andlegt og líkamlegt ofbeldi og aðra sambærilega fræðslu sem gerð er krafa um að starfsfólk mótsins kunni að bregðast við og að sjálfsögðu koma í veg fyrir“, segir Helgi Jónsson í Mannauðsnefndinni.

Öldungarnir létu sig ekki vanta enda ómissandi í svona verkefni – Hraunbúarnir Hreiðar og Guðni eru sem betur fer um borð!

Skátaháskóli á netinu

Þrátt fyrir góðan dag í Skátamiðstöðinni í gær var þar aðeins brot af þeim starfsmönnum sem þurfa nauðsynlega þjálfun – hvernig ætla skátar að leysa það mál? „Við höfum sett upp alla okkar þjálfunardagskrá á heimasíðu mótsins og þar geta verðandi sjálfboðaliðar lesið sig til, horft á myndbönd og klárað sitt nám að heiman. Við höfum því sett upp einskonar alþjóðlegan Skátaháskóla á netinu í tilefni af þessum viðburði og hver og einn þarf að framvísa fullgildu útskriftarskírteini til að geta orðið starfsmaður mótsins“, segir Helgi.

Víflar leggja vel til í þetta verkefni sem önnur – Reynsluboltarnir Unnur og Guðfinna leggja á ráðin.

Hvernig gengur að fá starfsfólk í svona mikla og krefjandi sjálfboðaliðavinnu?

Þrátt fyrir að um krefjandi sjálfboðin störf sé að ræða segja þeir Björn og Helgi að það gangi vel að fá starfsfólk: „Það er gríðarlegur áhugi fullorðinna erlendra skáta að leggja þessu móti lið en það má alltaf bæta við öflugu heimafólki og því langar okkur að nota tækifærið og hvetja eldri íslenska skáta til að hafa samband og taka þátt í þessu einstaka ævintýri með okkur – við þurfum á öllum íslenskum sjálfboðaliðum að halda sem vettlingi geta valdið – Skáti er jú ávallt viðbúinn“ segja þeir félagar að lokum og eru þar með roknir á næsta fund.

Höfðingjarnir eru að sjálfsögðu á kafi í þessu skemmtilega verkefni – Marta og Dagmar í góðum gír.

:: Heimasíða mótsins
:: Vefsíða þjálfunar sjálfboðaliða

 

Texti: Guðmundur Pálsson
Ljósmyndir: Gunnar Atlason

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar