grein_karlnjals_sandkassi

Skátastarf í sandkassa

Það var með ofurlítinn fiðring í maganum sem ég steig einn míns liðs út um tollahliðið á flugvellinum í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Skyldi einhver vera hér að taka á móti mér? Ef ekki, hvað á ég þá að gera?

Það var komið svo myrkur og klukkan var 2 eftir miðnætti þegar ég renndi upp að hliðinu að drengjaskátamiðstöðinni í furstadæminu Sharjah. Allir voru sofnaðir nema skriffinnskustjórarnir sem tóku á móti  nýju fórnarlambi opnum örmum. Ég var þvínæst leiddur út í sandinn, inn í lítinn tjaldhring og að tjaldi með uppábúnu rúmi.

Eftir þrjá tíma vaknaði ég við bænasöng frá mosku skátamiðstöðvarinnar og uppgötvaði að tjaldið mitt var fullt af sandi eftir sandstorma næturinnar.

Klukkan var 5:30 og ég  var staddur á the 4th International Youth gathering for scouting  & Intellectual Initiatives. Er það samkoma þar sem 138 karlkyns skátar frá yfir 70 löndum komu saman í því skyni að kynna hugmyndir sínar og verkefni á sviði sniðugra uppfinninga, auk þess að mynda vináttubönd.

Fyrsti dagurinn fór í það að kynna þessar hugmyndir. Var það hrein unun að heyra af þeim frábæru verkefnum sem þátttakakendur höfðu haft frumkvæði að. Má þar t.a.m. nefna tengslamyndunarsíðuna www.Scoutface.comsem ættuð er frá Rúmeníu, dósasöfnun í Oman, þjófavarnarkerfi frá Jemen og  baráttu gegn Alnæmi í Suður-Afríku. Sjálfur kynnti ég skátamótið EuroMiniJam og tengslamyndunarstarfið sem tengist því. Nánari umfjöllun um það er að finna annars staðar í blaðinu.

Þegar kynningunum sleppti tók við ævintýranlegur tími. Sharjah er menningarmiðja Furstadæmanna og frábær staður til að kynnast sögu og menningu svæðisins. Ekki bara þeirri glansmynd sem birtist heiminum í Dubai heldur einnig hvernig lífið var fyrir olíuna. Við fórum á söfn um sögu arabanna í stjörnu- og stærðfræði og út í eyðimörkina í jeppasafarí. Áhugavert var hvernig jeppasafarí í sandsköflunum kallaðist á við jeppaferðir í snjó. Má segja að maður hafi þar verið á heimavelli. Þegar skyggja í eyðimörkinni tók birtust upp úr sandinum bedúínatjöld þar sem við áðum, átum þjóðlegan mat og fylgdumst með fálkaveiðum og dönsum.

Tveir dagar fóru í kynningar á löndum. Var slegið upp heljarinnar sýningu þar sem helstu ráðuneyti landsins kynntu sína  starfsemi í bland við lönd þátttakenda. Gengu þar heimamenn milli bása og söfnuðu minjagripum hvort sem um var að ræða bæklinga eða einkaeigur þeirra sem stóðu við básana. Má segja að sumir vina minna hafi staðið uppi slyppir og snauðir eftir þann dag.

Einn daginn fylltist svæðið af vopnuðum vörðum og rauðum dreglum. Það skírðist því seinna um daginn kom verndari mótsins, Dr. Sultan Bin Mohammad El- Qasemmi  furstinn  af Sharjah í heimsókn. Annarri kynningu var slegið upp og heilsaði þessi alþýðlegi leiðtogi upp á hvert og eitt land og þáði gjafir. Fékk hann í hendur eintak af Völuspá frá íslensku skátahreyfingunni.

Mikill hluti dagskrárliða fór fram á arabísku og fór því fyrir ofan garð og neðan hjá flestum þátttakendum. Það verður þó að viðurkennast að þetta sameiginlega skilningsleysi  þátttakenda virtist hjálpa til við að þjappa okkur saman. Átti það hlut í því hversu sterk vináttubönd mynduðust.

Ferðin var eitt ævintýri út í gegn, óvissan mikil, fyrirmælin óljós og má því segja að öll ferðin hafi verið verið óvissuferð. Engu að síður jók hún skilning minn á heimi araba og hugsunarhætti þeirra en umfram allt þá eignaðist ég frábæra vini um heim allan.

Karl  Njálsson, Heiðabúi