Ættbálkarnir lögðu Windowslif undir sig

Skátamótið Festival de skátar – Campamento en Windowslif var haldið um síðustu helgi og þangað mættu skátar frá skátafélögunum Erninum í Grundarfirði og Stíganda í Búðardal. Þeir sem hafa innsýn í fantasíumálfar skáta hafa mögulega áttað sig á að Festivalið var haldið í Vindáshlíð, en skátar hafa hins vegar gaman af því að fara á heimshornaflakk um helgar og sú var raunin.
Þátttakendur

Þátttakendur

„Það var rosa fjör. Flokkarnir voru mismunandi lönd í S-Ameríku og gott betur því þau voru ættbálkar í Amazon og sköpuðu sér hin ýmsu ættbálkaeinkenni ásamt því að vinna sér inn stig til þess að ná yfirráðum yfir öðrum löndum,“ segir Marta Magnúsdóttir í Erninum en hún var mótsstjóri ásamt Elínu Huld Melsteð Jóhannesdóttur frá Stíganda.

Leikrænir tilburðir

Leikrænir tilburðir

Framandi hlutir eins og hnífapör

Aðalsteinn Þorvaldsson félagsforingi Arnarins segir að ættbálkarnir hafi fundið sig ótrúlega fljótt í hlutverkum sínum og verkefnum. „Það leið ekki að löngu áður en allskyns óp og dansar litu dagsins ljós, skraut og siðir sem voru mjög framandi eins og t.d. að borða ekki með hnífapörum,“ segir hann.

Verkefnin voru fjölbreytt og skátarnir máttu hafa sig alla við til að klára og komast í næsta því ekki mátti missa af neinu. Frá morgni til kvölds var sungið, dansað, og gert grín og glens, úti og inni.

Eigum við eitthvað að ræða saman?

Eigum við eitthvað að ræða saman?

Óvenju sæt hafragrjón

„Maturinn var líka framandi og borðaður þegar hann var tilbúinn sem var stundum ansi seint, ekkert lá ekkert á og nóg að gera,“ segir Aðalsteinn.

Matseldin, sem var í Suður-Amerískum stíl, tók einnig mið af þeirri staðreynd að Euroshopper hafragrjón eru í alveg eins pakka og Euroshopper sykur. Þessum raunveruleika var bjargað með því að bjóða upp á grjónagraut í staðinn fyrir hafragraut og þar sem nóg var til af hrísgrjónum voru þau einnig notuð í klatta í kaffitímum. Aðalsteinn segir að Jorge, fulltrúi skáta frá Ekvador hafi búið til gómsæta kartöfluklatta sem runnu ljúflega niður á sunnudegi.

SM2016-02-27-11.22.51

Ættbálkafréttir smíðaðar

Marta segir að yfir helgina hafi smiðjur verið opnar um ýmis málefni.  „Á laugardagseftirmiðdegi var fréttasmiðja opin og mættu nokkrir ættbálkar sem fengu að heyra um tilvist Skátamála og Skátablaðisins og fengu svo þau fyrirmæli að segja fréttir frá ættbálknum sínum. Að launum fengu þau perlur sem þau nýttu í að setja á bæði sitt land til að verja það gegn innrás annarra sem og á önnur lönd til að ná útrás í S-Ameríku,“ segir hún.

Aðalsteinn bætir við að það hafi verið foringjar og foreldrar frá Erninum og Stíganda við stjórn á póstum og einnig við að elda, gera og græja. Þórey, Fanney, Kiddi, Anna Magga og Unnur stóðu vaktina frá Stíganda og Aðalsteinn, Lína, Helena, Herdís, Steini og Anna frá Erninum

Grínuðu yfir sig

Á kvöldvökunni tók hver snilldin við af annarri að sögn Aðalsteins.  „Kvöldvökustjórarnir Guðmundur, Thu Thao og Elín settu allt á annann endann í gríninu. Rekkaskátarnir og dróttskátarnir héldu áfram að skemmta sér fram á nótt. Marta hleypti þeim í háttinn þegar þau voru byrjuð að grátbiðja hana um að fá að fara að sofa,“ segir hann.

„Það sem einkenndi ferðina var smitandi gleði frá rekkaskátunum og dróttskátunum. Allt sem þau gerðu var gert af gleði og með kátínu. Þau drógu alla með sér, yngri skáta og eldri foringja. Þau gerðu allt skemmtileg með glaðværð sinni,“ segir Aðalsteinn.

 

Í myndasafninu hér fyrir neðan má sjá afrakstur fréttasmiðjunnar:

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar