Að þora að taka skrefið

„Þetta er oft bara spurningin að þora að taka skrefið“ segir Dagbjört Brynjarsdóttir margreyndur drekaskátaforingi, þegar hún lýsir því hvernig það er fyrir reyndan foringja að bæta inn nýjum vinnubrögðum í skátastarfi með ungum skátum. Með hinum nýju vinnubrögðum er Dagga að vísa til breytinga sem gerðar hafa verið á starfsgrunni skátastarfs, en Skátarnir hafa á liðnum árum verið að gera endurskoðun á honum í samræmi við stefnu alheimshreyfingarinnar. Skátar á aldrinum 7 – 9 ára kallast drekaskátar og finnst það ekki leiðinlegt að heita svo ævintýralegu nafni.

„Aðal munurinn eftir breytinguna er að krakkarnir hafa meira að segja til um það hvað þau gera og þar af leiðandi er meiri gleði og eftirvænting eftir verkefnunum. Þau bíða spennt eftir því að gera það sem þau völdu að gera“. Dagga talar hér af reynslu því hún hefur verið með skátastarf fyrir þennan aldur í vel yfir áratug og má ekki á milli sjá hvort krakkarnir dýrka hana meira eða hún þá.

Drekar í vatnasafaríi

Drekar í vatnasafaríi

Gott að ylja sér á skátakakói úti í náttúrunni

Gott að ylja sér á skátakakói úti í náttúrunni

 

 

 

 

 

 

 

Þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og þematengt skátastarf

Í nýju áherslunum fyrir drekaskátaaldurinn er unnið í þemum eða dagskráráherslum þar sem drekaskátarnir að velja um verkefni innan þess þema sem foringjarnir setja upp. Að sögn Döggu er  valið lýðræðisuppeldi, þar sem ungu skátarnir fá reynslu í að velta fyrir sér mismunandi kostum og bera ábyrgð á því hvað þeir velja.  Að auki sé líklegra að verkefnin liggi á þeirra áhugsviði ef þau fá eitthvað um það að segja hvað er gert. Notkun á þemaaðferðinni gefi skátunum betri tengingu milli ólíkra viðfangsefna og setji skátastarfið í stærra samhengi.

 

Drekarnir hennar Döggu grilla á góðum degi

Drekarnir hennar Döggu grilla á góðum degi

Tilvonandi slökkiviliðsmaður mátar búninginn!

Tilvonandi slökkiviliðsmaður mátar búninginn!

Skemmtilegar kosningar

„Það er mikilvægt í öllu starfi með börnum að hafa leikinn í hávegum, enda leikurinn skilgreindur hluti Skátaaðferðarinnar“, segir Dagga. „Þess vegna notum við valleiki, sem við köllum lýðræðisleiki, þar sem krakkarnir fá að tjá sig á margvíslegan hátt. Þau geta með þessu tjáð sig öðruvísi en bara með orðum sem er mikilvægt fyrir svo unga skáta.  Með lýðræðisleikjunum fá þau þannig að koma skoðunum sínum á framfæri á jákvæðan hátt“

Drekaskátar – Hvað er nú það? Þú finnur upplysingar á kynningarvefnum Skátarnir – http://skatarnir.is/7-9-ara/

Viltu fá frekari upplýsingar um drekaskátastarf og nýjar áherslur í starfinu? Hafðu samband við fræðslustjóra á ingibjorg@skatar.is eða í síma 550-9803

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar