Að láni frá Landsbankanum

„Júlli var í góðu starfi hjá Landsbankanum á þessum tíma. Mér tókst að sannfæra Sverri Hermannsson, þáverandi bankastjóra um að „lána“ BÍS þennan frábæra starfskraft og skátaforingja í eitt ár og myndi hann halda áfram á launaskrá bankans þennan tíma. Það gekk eftir og að ári liðnu varð það úr að hann hætti hjá bankanum og hélt áfram starfi fyrir BÍS og er ennþá að“, segir Þorsteinn Fr. Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri BÍS þegar blaðamaður Skátamála bað hann að rifja upp hvernig það bar að að Júlíus hóf störf sem atvinnuskáti. Í dag eru liðin 20 ár frá því Júlíus Aðalsteinsson „Júlli“ gerðist atvinnumaður í skátastarfi.

„Samstarfið öll árin sem við unnum saman var án nokkurra hnökra“, segir Þorsteinn og heldur áfram: „Júlíus er afar vinnusamur og tryggur starfsmaður sem vinnur öll þau verk sem vinna þarf og setur ekki fyrir sig að fara í skítagallann, né þegar þurfti að vinna fram á kvöld eða um helgar. Fyrir félagasamtök líkt og skátahreyfinguna er slíkur starfskraftur ómetanlegur“.

Tvöþúsund og áttahundruð stólar?

Benjamín Axel Árnason var mótsstjóri Landsmóts skáta á Úlfljótsvatni 1999 og sagði okkur skemmtilega sögu af Júlla frá undirbúningi þess móts.

Blaðamaður Skátamála var dagkrárstjóri mótsins og man það glöggt að öllum vinnuhópum var gert að skila til Júlla „þarfagreiningum“ fyrir sinn dagskrár- eða tæknipóst. Gárungarnir kölluðu þessi form sín á milli þarma-greiningar hans Júlla og voru ekki beint vanir svona skipulags og pappírsstússi.

En gefum Benjamín aftur orðið. „Að vanda enduðu allar þarfagreiningarnar hjá Júlla sem af sinni eintöku þolinmæði og útsjónasemi annaðist innkaup og efnisútvegun fyrir þetta Landsmót eins og mörg bæði áður og síðar.  Það vantaði jafnan ekki svo mikið sem títuprjón eða tvinnakefli upp á að öllu væri reddað sem óskað hafði verið eftir og oft var það nú svo að Júlli bætti á efnislistana því sem menn höfðu gleymt að tiltaka en hann vissi mæta vel að ekki væri komist hjá að hafa til reiðu“ 

…á að sitja allt mótið?

Svo gerist það einu sinni sem oftar að Júlli hringir í Bennó, þá aðeins örfáum dögum fyrir mót. Aldrei þessu vant var þungt hljóðið í Júllanum og hringdi það öllum aðvörunarbjöllum hjá Bennó, „ef Júlli með stöðugleika klettsins og þolinmæði skjaldbökunnar var áhyggjufullur, þá var stórmál í uppsiglingu“ ég fékk eiginlega strax hnút í magann segir Bennó, hver þremillinn hafði nú komið upp á?

Hægt en skýrt og með miklum alvöruþunga varpar Júlíus fram stóru sprengjunni: „á að sitja allt mótið?“ – „þetta lið þitt hefur til samans pantað tvöþúsund og áttahundruð stóla fyrir dagskrána“ – „er ekki rétt að þú takir eitthvað á þessari vitleysu?“

„Hjúkket – mikið var mér létt að þetta var stóra vandamálið“ sagði Benjamín. Auðvitað komum við Júlli þessu niður í rúmlega 200 stóla.

Ekkert verk of smátt

Blaðamaður Skátamála spjallaði einnig við fleiri samstarfsmenn Júlíusar, bæði úr röðum starfsmanna Skátamiðstöðvarinnar í gegnum árin og gamla skátafélaga og það er sama hvar borið er niður, hver og einn minnist sérstaklega á það hvað Júlíus, eða Júlli eins og hann er jafnan kallaður, hefur ávallt gengið af samviskusemi, nákvæmni og vandvirkni til allra verka og ekkert verk sé svo smátt eða lítils virði að ekki beri að gera sitt besta til að leysa það af hendi eins vel og hægt er.

„Júlli er bæði lausnamiðaður og úrræðagóður og þessir tveir áratugir á skrifstofunni í viðbót við hans löngu skátareynslu hafa að sjálfsögðu byggt upp hjá honum þekkingu sem er gríðarlega verðmæt og eftirsóknarverð fyrir okkur sem hreyfingu“ segir samstarfsmaður hans í skátastarfinu til margra ára. „Ef eitthvað er óljóst eða upplýsinga er þörf er það ósjaldan sem manni er einfaldlega bent á hið augljósa: „spurðu Júlla“ og þar er sjaldnast komið að tómum kofanum.

Með ferðafélögum á heimsmóti skáta í Kóreu 1991.

Með ferðafélögum á heimsmóti skáta í Kóreu 1991.

Alveg glataður ferðafélagi

Júlli hefur í gegnum störf sín fyrir BÍS öðlast umfangsmikla reynslu í alþjóðlegu skátastarfi. Hann hefur verið fararstjóri á alþjóðleg mót, tekið þátt í ótal fundum, ráðstefnum og viðburðum og gegnt margvíslegum ábyrgðarhlutverkum fyrir BÍS á alþjóðlegum vettvangi og gerir enn.

„Almennt held ég að Júlli sé stundum vanmetinn en það er sjálfsagt vegna þess hve hann hefur óskaplega litla þörf fyrir að trana sér fram, eins og sumir“ segir skátabróðir hans. „Talandi um alþjóðlega reynslu þá er hann enginn eftirbátur þeirra sem best eru að gera það í utanríkisþjónustunni“ heldur viðmælandi áfram.

Aðspurður um ferðalögin erlendis með Júlla segir viðmælandi okkar þetta: „Það er snilldin ein að ferðast með honum en stundum getur hann verið alveg glataður ferðafélagi og hér er dæmi: Þegar þú ferðast með Júlla upplifir þú rétt eftir flugtak að þú veist eiginlega ekki hvert þú ert að fara, hverja þú ert að fara að hitta, hvar fundurinn eigi að eiga sér stað né yfirhöfuð nokkuð í þinn haus. Ástæða: Júlli er búinn að plana þetta allt og þú bara varst glaður með það. Þegar komið er á áfangastað breytist þú í sex ára barn sem heldur í faldinn hans Júlla sem leiðir þig í gegnum þetta allt saman, hann er með alla pappíra og allt á hreinu…ég segi þetta nú aðeins í gríni en svona er hann – þú getur bara einbeitt þér að þínu verkefni í tiltekinni ferð, Júlli sér um að koma þér inn og út og græjar annað sem upp á kemur“.

Hefur „synt“ með þeim stærstu

Á löngum og farsælum ferli sínum sem skáti hefur Júlli átt því láni að fagna að vinna með mörgu frábæru fólki. Skátahöfðingjar hafa komið og farið, stjórnir kosnar og leystar af og samstarfsfólk verið margt í gegnum tíðina á skrifstofunni.

Júlíus hefur kynnst og unnið með flestu af því fólki sem markað hefur hvað dýpst spor í íslenskt skátastarf á síðustu áratugum. Má þar nefna Þorstein Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóra BÍS til margra ára, sem lyfti grettistaki á fjármálum skátahreyfingarinnar og stýrði BÍS með dugnaði um árabil, skátahöfðingjarnir Gunnar Eyjólfsson, Ólafur Ásgeirsson, Margrét Tómasdóttir og Bragi Björnsson voru og eru allt nánir samstarfsmenn Júlla og ekki má gleyma eldri snillingum eins og Ágústi Þorsteinssyni, Jónasi B., Björgvini Magnússyni og Hrefnu Tynes.

„Þegar þú spilar í úrvalsdeild öll þessi ár með öllu þessu toppfólki þá er það einfaldlega vegna þess að þú átt fullt erindi“, segir viðmælandi Skátamála úr Vesturbænum. „Hann er auðvitað alinn upp í þessu frá blautu barnsbeini, foreldrar hans magnaðir skátar, hans uppeldi allt tengt starfinu og það að fá tækifæri til að vinna og starfa með þessu liði sem ég nefndi hér að framan hefur klárlega eflt hann enn frekar enda eru fáir jafn einlægir í afstöðu sinni til skátastarfsins og Júlli – hann trúir því virkilega að við getum breytt heiminum og ég er ekki frá því að hann hafi nokkuð til síns máls“.

Fyrsta konan

Blaðamaður Skátamála vann margvíslega heimildarvinnu vegna þessarar greinar og ákvað í kjölfarið, með fullri virðingu fyrir móður Júlla, og öðrum konum í hans lífi, að færa mætti haldbær rök fyrir því að Hrefna Tynes hafi verið fyrsta konan í hans „skátalífi“.

Hrefna var einstök kona og skátarnir í Ægisbúum nutu kosta hennar og krafta um margra árabil. Hún var ylfingaforingi í Ægisbúum og þar liggja leiðir hennar og Júlla saman á sjöunda áratug síðasta aldar þegar Júlli vígist sem ylfingur í Sendlingasveit Hrefnu.

Það er alveg í lagi að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn um stund og velta fyrir sér hvernig ylfingafundir Sendlinga hafa verið á þessum tíma. Hrefna, þessi glæsilega og magnaða kona, mætir til fundar í kvenskátabúningi; lágir hælar, pils, jakki og höfuðfat – henni mæta baldnir guttar úr Vesturbænum sem kölluðu ekki allt ömmu sína. Hrefna, með sínum galdri, vefur þeim öllum um fingur sér með söng, uppbyggjandi sögum og verkefnum sem höfðuðu til ungra drengja með hrufluð hné og steinvölur í vasa – klárar í að þjóta inn um næstu rúðu ef svo bar undir.

Á innan við klukkustund hefur Hrefna sagt, gert eða sungið eitthvað sem kemur inn alveg nýrri hugmynd hjá þessum ungu vígabræðrum, eitthvað sem þeir festa ekki alveg hendur á í fyrstu en verður samt til þess að í lok fundar haldast þeir í hendur og syngja saman – hvílíkur galdur!

Ekki orðið fyrir vonbrigðum

Júlíus í viðtal við Hrefnu í Æskunni 1971.

Júlíus í viðtal við Hrefnu í Æskunni 1971.

Eins og fyrr segir hefur Júlli notið þeirrar gæfu að starfa með frábæru fólki alla sína tíð, fólki sem hann hefur lært af og fólki sem hann hefur veitt innblástur með sínu óeigingjarna starfi. Hér að framan er minnst á Hrefnu Tynes þegar hún var í hlutverki ylfingaforingja Júlla.

Leiðir þeirra lágu auðvitað saman lengi síðar í starfinu í Ægisbúum, bæði innan húss og utan og gott dæmi um „utanhúss-verkefni“ er viðtal Hrefnu við Júlla í 11.-12. tölublaði Æskunnar, 72. árgangur, sem kom út árið 1971. Á þessum tíma sér Hrefna um sérstakan skátaþátt í Æskunni, tekur 3ja síðna viðtal við Tómas Grétar Ólason, félagsforingja Ægisbúa, en skýtur inn spurningu til 3ja starfandi skáta þar sem þeir eru inntir eftir því „af hverju ertu skáti“?

Og Júlíus Aðalsteinsson, flokksforingi í Löxum, Fiskasveit, Jórvíkingadeild, Ægisbúum svarar:

„Ég er skáti af því að ég hafði haft kynni af skátastarfi og ákvað að ganga í skátahreyfinguna og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum. Ég tel skátastarf hollt, nytsamt og skemmtilegt tómstundagaman“.

Júlíus skátaforingi

Júlli hefur gegnt öllum mögulegum og ómögulegum ábyrgðastöðum innan skátahreyfingarinnar. Hann er sá eini einstaki aðili sem hefur ollið mestum kostnaði BÍS hvað varðar nafnspjaldaprentun í starfi sínu hjá BÍS. Gefin hafa verið út nafnspjöld á Júlla þar sem hann er titlaður verkefnastjóri, félagsmálastjóri, félagsmála- og skrifstofustjóri og svo mætti lengi telja. Það er hér með tillaga blaðamanns Skátamála að að Júlli fái nýtt nafnspjald, og það verði hans síðasta, og á því standi einfaldlega: Júlíus Aðalsteinsson skáti. Þannig þekkjum við hann og að minnsta kosti hálf þjóðin einnig.

Júlli var félagsforingi Skátafélagsins Ægisbúar á árunum 1982-1984 og svo aftur á árunum 1988-1996.  Hann hefur verið fyrirliði foringjaþjálfunar Skátasambands Reykjavíkur, ritstjóri Skátaforingjans og Skátablaðsins og er þá aðeins fátt upp talið af hans framlagi til skátastarfsins.

Skátar um land allt senda Júlíus Aðalsteinssyni, „Júlla“ sínar bestu kveðjur í tilefni tímamótanna, með þakklæti fyrir liðin ár og tilhlökkun til þeirra ókomnu.

/gp

 

|

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar