80 íslensir skátar mættir á Heimsmót í Japan

Það voru þreyttir skátar sem komu hér inn á tjaldsvæðið í gærkvöldi eftir 32 stunda ferðalag yfir hálfan hnöttinn. Flogið var frá London til Hong Kong, þaðan til Taipei og síðan til Fukuoka í Japan.

 

jamboree15logo-250pixÞeirra beið líka erfitt verkefni því yfir mótssvæðið gekk óveður með miklum vindi og rigningu en ekki var talið þorandi að láta þau tjalda. Hluti hópsins svaf því á göngum í íþróttahöll sem hér er en hinn hlutinn svaf úti undir berum himni. Það var því ekki mikill svefn sem náðist fyrstu nóttina. Núna er hér  komið frábært veður, 32 stiga hiti og sól. Mikill raki er hér í lofti og því virkar hitinn eins og 40 gráður. Það eru því heitir og sveittir skátar sem eru hér á mótssvæðinu í dag og vinsælustu orðin eru vatn, sólhattur og sólarvörn. Verið er að undirbúa tjaldbúðina og því fá þau að sofa í eigin tjaldi í nótt.

 

Hingað á mótssvæðið streyma nú að skátar frá öllum heimshornum en reiknað er með að fulltrúar verði hér frá um 140 þjóðum. Íslensku skátarnir voru fljótir að blanda geði við aðra skáta og greinilegt að þau vekja mikla athygli enda ekki á hverjum degi sem fólk hittir íslendinga. Það er margt sem kemur krökkunum á óvart hér í Japan. Óvenjumikil gestrisni og kurteisi heimamanna, óvenjulegt vöruúrval í matvöruverslunum „er ekki til neitt venjulegt“ heyrðist áðan frá einum og þessi mikli hiti sem þau eru nú að venjast. Allt þetta er bara á fyrsta degi.

 

Frábær stemning og meiriháttar kveðjur héðan frá Yamaguchi í Japan.
:: Skoða síðu Skátamála um mótið

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar