5000 skátar fyrir 2020, en hvernig? Lítil saga úr Mosfellssveit eftir Ævar Aðalsteinsson

Skátastarfið hvílir á gömlum gildum

Skátastarf á Íslandi á sér langa sögu. Stutt er síðan skátahreyfingin fagnaði 100 ára afmæli og á þeim langa tíma hefur skátastarfið gengið í gegnum miklar þjóðfélagsbreytingar og reynt að laga þessa gömlu og góðu hugmynd að tíðarandanum hverju sinni. Margir hafa komið við í skátunum á sínum uppvaxtarárum. Sumir stoppuðu stutt við meðan aðrir fundu fjölina sína þar og eiga að baki áratuga skátastarf. Þetta á við um allt æskulýðs- og tómstundastarf og eru skátarnir þar engin undantekning.

Er skátastarfið í tilvistarkreppu?

Á síðastliðnum árum hefur skátastarf í landinu tekið talsverðum breytingum þó inntakið og hugmyndafræðin sé ávallt sú sama.  Að með skátastarfi megi þroska og hvetja einstaklinginn til að verða nýtur og góður samborgari.

Ný liðnar breytingar snúa fyrst og fremst að dagskrá og þeim verkefnum og því hvatningakerfi sem skátarnir starfa nú eftir. Þetta hefur að flestra dómi tekist vel og hjálpað skátastarfinu að þróast áfram og aðlagast breyttum tíðaranda og nýrri tækni.  Ástæða breytinganna var ef til vill sú að skátahreyfingin fann sig í ákveðinni tilvistarkreppu og í samkeppni við aðrar tómstundagreinar. Með kröfunni um nýjar áherslur og viðmið var lagt af stað í þessa vegferð með það að markmiði að styrkja skátastarfið á landsgrundvelli með fjölgun skátafélaga, öflugra skátastarfi og að lokum fjölgun skáta á Íslandi.  

wp_20151006_17_20_37_pro

Gróandinn í sveitinni

En það eru aðrir þættir sem koma hér við sögu. Athyglisvert er að á meðan ekki fjölgar í skátahreyfingunni á landsvísu þá er skátastarf í sókn og gengur vel á vissum stöðum. Þar má nefna Mosfellsbæ og skátastarfið í Mosverjum. Greinarhöfundur hefur haft tækifæri til að taka þátt í þessu skemmtilega starfi og fengið að fylgjast með félaginu vaxa hægt en örugglega. Á nýliðnu skátaþingi voru þessi mál til umræðu og í framhaldi af því er eru þessar línur ritaðar að beiðni Skátablaðsins.

Skátafélagið Mosverjar var stofnað, eins og mörg önnur skátafélög, á sjötta áratug síðustu aldar. Þá var mikill kraftur í skátastarfi á Íslandi, í Mosfellssveit var að myndast þéttbýliskjarni og vaknaði þörf fyrir fjölbreyttari tómstundir. Starfið hefur gengið í hæðum og lægðum, en frá 1990, í tuttugu og fimm ár, hefur starfið verið stöðugt og síðustu tíu til fimmtán ár í mikilli sókn. Nú er staðan sú að skátastarfið er löngu búið að marka sér stöðu í bæjarfélaginu sem sjálfsagður valkostur í tómstunda- og frístundastarfi barna og unglinga í Mosfellsbæ.

Hvernig hefur þetta gerst og getur það gerst víðar?

Já, örugglega, en það eru greinilega ákveðnir þættir sem haft hafa góð áhrif á skátastarfið.

  • Stjórnun skátafélagsins, sem unnin var fyrst af örfáum, en þolgóðu fólki sem gafst ekki upp eða hætti á miðri leið, varð þess valdandi að regla komst á grundvöll skátastarfsins.
  • Skátafundir voru haldnir að skátasið samkvæmt dagskrá og foreldrar gátu treyst því að skátafundurinn yrði skemmtilegur og uppbyggilegur fyrir barnið.
  • Stuðningur bæjarfélagsins hefur verið mikilvægur í gegnum tíðina. Hann hefur vaxið í formi húsnæðis og starfsstyrks enda bæjarstjórnin verið sammála um að skátastarf sé mikilvægur valkostur í Mosfellsbæ. Mosverjar eru eina skátafélagið á svæðinu og getur milliliðalaust leitað til bæjarins um aðstoð eða fyrirgreiðslu sé þess þörf. Það á líka við í hina áttina. Bæjarfélagið hefur á síðustu árum leitað til skátanna með ýmis verkefni sem Mosverjar hafa oftast tekið að sér. Stundum gegn greiðslu en líka í sjálfboðavinnu. Báðir hafa því ávinning af þessu jákvæða samstarfi sem kemur samfélaginu til góða.
  • Með eigin skátaheimili árið 2002 fengu Mosverjar betri vind í seglin og gátu komið starfinu í en betri farveg. Skátaheimili er nefnilega „heimili“ sem heldur utanum starfið, hugmyndirnar og það góða andrúmsloft sem skátunum er mjög mikilvægt. Þetta var því mikið gæfuspor og hafði mikil jákvæð áhrif, enda fjölgaði mikið í skátafélaginu strax í kjölfarið.
  • Félagið setti sér ný lög og hélt aðalfund með skýrslu, ársreikningum og stjórnarkjöri. Þetta setti starfseminni formlegri farveg. Ákveðnir verkferlar og skipulag komst á og fullorðnir einstaklingar tóku sæti í stjórn félagsins. Foringjar félagsins urðu að vera 18 ára eða eldri, haldnir voru foringjafundir og foringja“pepp“. Í dag eru Mosverjar skátafélag „á réttri leið“.  
  • Lögð var áhersla á að virkja foreldra til aðstoðar og fullorðins „party“, fjölskylduferðir og ýmislegt annað varð þess valdandi að enn meiri festa komst í starfið. Þannig skapaðist smám saman bakland sem foringjar og stjórn félagsins gat leitað til. Með þátttöku fullorðinna komst meiri þyngd og kjölfesta í skátastarfið sem leiddi til þess að það sem var ákveðið komst í framkvæmd.
  • Starfað var eftir þeirri einföldu reglu að það litla sem gert væri, tækist vel. Helstu dagskrárliðir, fyrir utan reglubundið skátastarf með vikulegum skátafundum, voru sveitarútilega á hverri önn, þátttaka á viðburðum BÍS og skátamót innanlands og utan.  Þetta hefur skilað sér í reglulegu skátastarfi þar sem festa og nauðsynleg ákveðni hefur vinninginn.
  • Stuðningur bæjarins og aðrar tekjur voru nýttar beint í skátastarfið eða lagðir inn á ferðareikning skátanna vegna skátamóta innanlands og erlendis. Félagið hefur líka styrkt fjölmarga á námskeið og lagt foringjum til ákveðna þóknun fyrir góð störf.
  • Síðast en ekki síst skiptir nærumhverfið máli. Umhverfi Mosfellsbæjar er mjög heppilegt til skátastarfs, skátarnir eru sýnilegir í samfélaginu, við fáum inni í bæjarblaðinu, rekum heimasíðu, höldum sumarnámskeið og erum með verkefni í samstarfi við bæinn. Þessir hlutir telja allir og verða þess valdandi að fólk vill starfa með (jafnvel fullorðnir). Nærumhverfi er líka sú hugmynd að nýta það sem við höfum, bæði mannskap og búnað og láta þau tækifæri sem við fáum leiða til jákvæðrar þróunar. Þetta þarf að rækta og þetta þurfa forvígismennirnir að haf í huga.  

wp_20151010_10_59_21_pro

Er til fullkomið skátastarf?

Nei, en viðleitnin kemur okkur langt. Að lokum má segja að þegar ég lít til baka þá eru það þessi atriði sem hafa eflt skátastarfið í Mosfellsbæ og komið því þangað sem það er í dag.  Starfið hefur auðvitað verið af mismiklum krafti og margir hafa komið að málum. Það sem vel hefur tekist hefur verið reynt að þróa áfram og með ákveðinni festu hefur fengist samfella í starfið.

Höfundur er tómstunda- og félagsmálafræðingur og f.v. félagsforingi Mosverja.